Innlent

Þurfa að endurprenta byggðasöguna vegna klúðurs

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Grímsnes- og Grafningshreppur stendur frammi fyrir óvæntum útgjöldum því sveitafélagið þarf að greiða nokkrar milljónir króna í endurprentun á byggðasögðu sveitarfélagsins vegna mistaka í nýrri bók. „Klúður sem sveitarstjórn tekur á sig,“ segir Hörður Óli Guðmundsson varaoddviti.

Fyrir jól kom út bók á vegum Grímsnes- og Grafningshrepps um byggðasögu Grafnings og Grímsness. Þegar menn fóru að skoða nýju bókina komu í ljós allskonar villur og sumar fjölskyldur vantaði alveg inn í bókina.

„Stóra bókamálið snýst um það að bókin er ekki alveg eins og hún átti að vera eða eins og við vildum hafa hana. Okkur þykir þetta mjög miður því við vildum standa vel að þessu og vera stolt af útgáfunni því að þetta er mjög gott rit,“ segir Hörður Óli.

Ef hann vissi hvernig svona mistök gerðust þá hefðu þau eðlilega ekki orðið.

„Þetta gerist, ætli þetta sé ekki lífið sjálft? Það er svona, það er ekkert annað að gera en laga það,“ segir Hörður Óli sem segist leiður yfir mistökunum.

„Þetta er þyngra en tárum taki að þurfa að leiðrétta sig og gera hlutina aftur. Það er mjög leiðinlegt.“

Nokkrar milljónir króna kostar að láta endurprenta bókina með nýjum upplýsingum en stefnt er á að nýju eintökin komi út í vor. En hver eða hverjir bera ábyrgð á mistökunum með bókina?

„Nú, auðvitað berum við ábyrgð á þessu klúðri, sveitarstjórnin og þar með ég. Við vonum bara að þetta verði gleymt og grafið þegar kosið verður næst,“ segir varaoddvitinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×