Viðskipti innlent

„Allir ættu að vera meðvitaðir um hvað verðtrygging felur í sér“

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Aðalmeðferð fór fram í málinu í dag.
Aðalmeðferð fór fram í málinu í dag. Vísir/GVA
„Allur almenningur er upplýstur um verðtryggingu og hvað hún felur í sér,“ sagði Áslaug Árnadóttir, lögmaður Íslandsbanka í máli sem Gunnar V. Engilbertsson, viðskiptavinur bankans, höfðaði gegn bankanum vegna fjögurra milljóna króna verðtryggðs fasteignaveðláns sem hann tók árið 2007.

Einar Páll, til vinstri, sagði fyrir dómnum að verðtryggingin væri flókin.Vísir/GVA
Segir lánaskjölin ófullnægjandi

Lögmaður Gunnars, Einar Páll Tamimi, sagði að Gunnar hefði ekki verið upplýstur um hvernig lánið gæti þróast á lánstímanum vegna verðtryggingarinnar. Í munnlegum málflutningum, sem fram fór í dag fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, sagði Einar Páll að í lánaskjölunum væri ekki vísað til hvaða vísitölu verið væri að binda lánið við, ekki upplýst hvernig sú vísitala væri reiknuð og svo að minnst eitt prósent ofmat væri á verðhækkunum á hverju ári samkvæmt vísitölunni.

Einar Páll sagði að bankinn ætti að hafa gert lántakandanum grein fyrir um hvaða vísitölu væri að ræða, hvernig hún væri samansett, og hver þróunin hefði verið á henni á einhverju tilteknu tímabili. Tók hann sem dæmi að bílaleigur væru með ítarlegri útskýringar á lögum og skilmálum um bíla sína en bankinn um verðtryggð lán sín.

Leitað var til EFTA-dómstólsins um ráðgefandi álit í málinu og var álit dómsins birt í lok ágúst. Þar kom fram að að tilskipun Evrópusambandsins um óréttmæta skilmála í neytendasamningum leggi ekki almennt bann við skilmálum um verðtryggingu veðlána í samningum milli veitenda og neytenda. EFTA dómstóllinn sagði það vera íslenskra dómstóla að taka afstöðu til þess hvort lánasamningurinn sé sanngjarn. Tekist er á um það fyrir héraðsdómi.

Gunnar, til hægri, sagðist hafa tekið áhættuminni valkostinn þegar hann tók verðtryggt lán í stað gengistryggðs.Vísir/GVA
Tók áhættuminni valkostinn

Gunnar var sjálfur kallaður fyrir dóminn til að gefa skýrslu en auk hans kom Heiðrún E. Guðmundsdóttir, deildarstjóri vísitöludeildar Hagstofu Íslands, fyrir dóminn þar sem hún svaraði spurningum um vísitölu neysluverðs. Gunnar, sem er menntaður viðskiptafræðingur, starfaði á lánasviði Glitnis um tíma en hann vann í bankakerfinu frá árinu 1998 þar til hann hóf störf sem sjálfstætt starfandi ráðgjafi, meðal annars fyrir slitastjórnir föllnu bankanna.

Aðspurður um ástæður þess að hann tók verðtryggt lán sagðist hann hafa talið það vera áhættuminna. „Það var á þeim tíma, þá voru ekki mörg lán í boði. Annaðhvort erlend lán eða þessi svokölluðu verðtryggðu lán sem bankarnir voru farnir að bjóða. Mér fannst bara áhættuminna að taka verðtryggt lán,“ sagði hann og bætti við: „Það var búið að vera langt tímabil með lágri verðbólgu og góður stöðugleiki. Það virtist vera það augljósa til að gera.“

Gunnar segist ekki hafa séð hækkunina á láninu sínu fyrir. „Nei ,ég sá það allavega ekki fyrir. Ég var ekki með þá spádómseiginleika. Þegar ég tek lánið var búið að vera mjög langt stöðugleikatímabil varðandi verðbólgu,“ sagði hann. Gunnar sagðist ekki hafa átt von á 20 prósent verðbólgu á sama tíma og laun væru að lækka, líkt og gerðist í hruninu.

Þá sagðist Gunnar ekki hafa spáð í hvernig vísitalan væri fundin út. „Þetta var bara vísitala sem var birt af hagstofunni og henni var bara „pluggað“ beint í þetta skuldabréf og þetta reiknað af sjálfvirku kerfi bankans,“ sagði hann.

Áslaug, til vinstri, sagði að öllum mætti vera ljóst hvernig verðtryggingin virkaði. Talað væri um verðtryggt samfélag á Íslandi.Vísir/GVA
Öllum skilyrðum uppfyllt

Áslaug, lögmaður Íslandsbanka, sagði að öllum lagalegum skilyrðum væri uppfyllt í lánasamningnum og fylgiskjölum. Blés hún á að verðtryggingin væri fyrirbæri sem íslenskir neytendur skildu ekki. „Hvað er verðtryggingin? Sóknaraðili hefur gert mikið úr því að verðtrygging sé flókið fyrirbæri og illskiljanlegt,“ sagði hún og bætti við: „Verðtrygging er engin geimvísindi.“ 

Sagði Áslaug að verðtryggingin hefði verið hluti af daglegu lífi Íslendinga í áratugi og að jafnvel væri talað um að íslenskt samfélag væri verðtryggt. 

„Allir ættu að vera meðvitaðir um hvað verðtrygging felur í sér,“ sagði hún og bætti við að henni þætti Einar Páll gera lítið úr gáfum og skilningi almennings með því að efast um að fólk skilji verðtrygginguna. „Allur almenningur er upplýstur um verðtryggingu og hvað hún felur í sér.“

Áslaug taldi líka fráleitt að ef verðtryggðu ákvæðin yrðu dæmd ógild gæti lánasamningurinn ekki staðið með þeim ákvæðum sem á eftir væru. „Ef að lánið hefði ekki verið verðtryggt hefði það líklega borið breytilega, umtalsvert hærri vexti en lánið gerði,“ sagði hún. Einn dómaranna spurði hana þá hvort að eitthvað annað hefði verið í boði fyrir lántakendur og svaraði hún: „Slík lán voru í boði en ekki auglýst og fylgdu óverðtryggðum vöxtum Seðlabankans. Þeir vextir fóru upp í 27 prósent á tímabili.“

Lögmaðurinn hafnaði því líka einnig að verðtrygging væri einhliða breyting á verði. Sagði hún að verðtrygging með vísitölu neysluverðs væri það sem lántakandi og lánveitandi kæmu sér saman um að miða við, útreikningur vísitölunnar væri framkvæmd af óháðum aðila og að um væri að ræða viðurkenndan mælikvarða.

Þá sagði hún að ekki væri hægt að bera fyrir sig vanþekkingu á lögum um verðtryggingu.

Búist er við að dómur verði kveðinn upp í málinu innan fjögurra vikna.

Uppfært klukkan 15.42. Í upphaflegri útgáfu fréttarinnar sagði að Heiðrún Guðmundsdóttir hefði svarað spurningum um verðtrygginguna. Það er ekki rétt heldur svaraði hún spurningum um vísitölu neysluverðs.


Tengdar fréttir

Telur líklegt að verðtryggingin haldi hjá íslenskum dómstólum

Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, telur líklegt að verðtrygging neytendalána haldi þegar málið fer fyrir íslenska dómstóla. Hann segir mikilvægt að búið sé að eyða þeirri óvissu sem var uppi vegna ákvörðunar EFTA-dómstólsins.

Menn önduðu léttar í Seðlabankanum

Óvissu um lögmæti verðtryggingar hefur að miklu leyti verið eytt með dómi EFTA-dómstólsins og niðurstaðan er jákvæð fyrir fjármálastöðugleika í landinu, segir Már Guðmundsson seðlabankastjóri.

Verðtryggingin heldur

Íslandsbanki vann fullnaðarsigur í máli gegn Gunnari V. Engilbertssyni fyrir EFTA dómstólnum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×