Innlent

Sjöundi hver stúdent sýndi hættumerki lotugræðgi í nýrri könnun

ingvar haraldsson skrifar
Páll Biering segir að honum hafi komið á óvart hve margir nemendur noti hægðarlosandi lyf en 4,5 prósent og 2,5 prósent svarenda í könnunum tveimur sögðust hafa notað slík síðustu þrjá mánuði.
Páll Biering segir að honum hafi komið á óvart hve margir nemendur noti hægðarlosandi lyf en 4,5 prósent og 2,5 prósent svarenda í könnunum tveimur sögðust hafa notað slík síðustu þrjá mánuði. vísir/stefán
Ríflega sjöundi hver nemandi við Háskóla Íslands sem tók þátt í tveimur könnunum á vegum Hjúkrunarfræðideildar háskólans sýndi hættumerki vegna lotugræðgi og þyrfti að leita sér aðstoðar vegna þess. Þetta eru niðurstöður rannsóknar sem Páll Biering, dósent í geðhjúkrun hjá Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, kynnti á ráðstefnu um rannsóknir í líf- og heilbrigðisvísindum við Háskóla Íslands í dag. Þar kom einnig fram að 9,1 prósent og 7,6 prósent svarenda í könnunum tveimur höfðu framkallað uppköst síðustu þrjá mánuði.

Páll segir hlutfallið fremur hátt og bendi til þess að vandamálið eigi við víðar en bara hjá  háskólastúdentum. „Ég geti ekki ímyndað mér að þetta sé eitthvað öðruvísi hjá ungu fólki almennt. Þó það sé oft talið í erlendum rannsóknum að stress sé meira hjá háskólanemum er meirihlutinn af ungu fólki í einhverskonar námi og því undir álagi,“ segir Páll.

Páll segir að þrátt fyrir að hann seti þann fyrirvara á niðurstöðurnar að vandamálið gæti verið ofgreint vegna lágs svarhlutfalls þá sé staðan ekki góð. „Þetta eru svo margir einstaklingar og hlutfallið er talsvert hátt. Ef hlutfallið væri helmingi lægra fyndist mér það samt hátt,“ segir Páll.  

Hann segir könnunina fyrst og fremst lýsandi fyrir konur innan háskólasamfélagsins en um 20 prósent kvenkyns nemenda í Háskóla Íslands tóku þátt í könnuninni en einungis 7 prósent karla. Alls tóku 1280nemendur þátt í fyrri könnuninni og 1115 þátt í þeirri seinni.

Skýr tengsl milli neikvæðar sjálfsmyndar og stress

Þá segir Páll niðurstöðuna sýna skýr tengsl milli neikvæðar sjálfsmyndar, stress og svo lotugræðgi og megrunarþráhyggju. „Það er mjög sterk fylgni milli lélegrar líkamsímyndar og streitu í daglegu lífi. 57 prósent þeirra sem hafa neikvæða líkamsímynd finna til streitu í daglegu lífi. Bæði þeir sem eru yfir og undir kjörþyngd og  þeir sem greinast með megrunarþráhyggju og lotugræðgi hafa neikvæða líkamsímynd og upplifa mikla streitu og þar að leiðandi lélega geðheilsu,“ segir Páll

Það kom Páli á óvart hve margir sögðust notast við hægðarlosandi lyf til að létta sig en 4,5 prósent og 2,5 prósent svarenda í könnunum tveimur sögðust hafa notað slík lyf síðust þrjá mánuði. „Það kom mér á óvart að þetta væri svona algengt. Það virðist vera talsverður fjöldi fólks sem  notar lyf til að létta stig.“

Megrunarkúra ala á óánægju

Að mati Páls þyrfti að grípa til aðgerða strax í framhaldsskólum til að sporna við vandamálinu og þá séu megrunarkúrar ekki lausnin.

„Það þyrfti að beita forvörnum í framhaldskólum og ekki beina þeim bara að mataræði og hreyfingu heldur að hjálpa fólki að sætta sig við eigin líkama. Það er alltaf verið að reka áróður fyrir skyndilausnum eins og megrunarkúrum sem sýnt hafa sig í rannsóknum skili litlum árangri í baráttunni við ofþyngd og geta verið orsakavaldar af þessum átröskunum. Það er alltaf verið að hamra á því í sambandi við þessu heilsuátök að líkami þinn sé ómögulegur og þar að leiðandi brjóta niður líkamsímynd fólks. Það er allt gott við að vera í kjörþyngd en þessar aðferðir sem maður heyrir mest um í umræðunni eru ekki vænlegar til árangurs og ala á óánægju sem veldur miklum kvíða og streitu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×