Innlent

Dagurinn lengst um 40 mínútur

Kristján Már Unnarsson skrifar
Sólsetur í Reykjavík í dag er kl. 15.57, en var klukkan 15.29 þegar dagur var stystur, þann 21. desember.
Sólsetur í Reykjavík í dag er kl. 15.57, en var klukkan 15.29 þegar dagur var stystur, þann 21. desember. Vísir/Pjetur.
Landsmenn finna þessa dagana fyrir lengingu birtutímans með hækkandi sól. Þannig telst lengd dagsins í dag í Reykjavík vera 4 klukkustundir og 45 mínútur, en var 4 klukkustundir og sjö mínútur þann 21. desember. Lengingin frá vetrarsólstöðum er 38 mínútur en í dag var sólris klukkan 11.12 í borginni en sólsetur er klukkan 15.57, samkvæmt tímtalsvefnum timeanddate.com.  Þann 21. desember, á stysta degi ársins, var sólris klukkan 11.22 en sólsetur klukkan 15.29. 



Á morgun verður lenging birtutímans orðin 42 mínútur. Eftir örlítil hænufet fyrstu dagana eftir vetrarsólstöður víkur skammdegið hratt upp úr þessu. Lenging dagsins í Reykjavík nemur fjórum mínútum á dag næstu daga, 13. janúar verður lengingin komin í 5 mínútur á dag og í 6 mínútur á dag eftir 24. janúar en þá verður lengd dagsins komin yfir sex klukkustundir. Þann 1. febrúar fer lengd dagsins svo yfir 7 klukkustundir. 



Talsverður munur er á birtutíma í skammdeginu eftir því hvar menn eru á landinu. Þannig er lengstur birtutími í dag, 7. janúar, í syðstu byggð Íslands, Vestmannaeyjum, 5 klukkustundir og 4 mínútur. Á Akureyri telst dagurinn vera 3 klukkustundir og 54 mínútur. Dagurinn í Eyjum er því 19 mínútum lengri en í Reykjavík og 70 mínútum lengri en á Akureyri. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×