Strákarnir okkar áttu ekki roð í sænska landsliðið í vináttulandsleik í handbolta sem fram fór í Kristianstad í Svíþjóð í kvöld, en heimamenn unnu sannfærandi sigur, 30-24.
Ísland komst 2-0 yfir og hafði undirtökin fyrstu mínúturnar, en Svíar náðu fljótt undirtökum í leiknum og voru fjórum mörkum yfir í hálfleik, 14-10.
Í þeim síðari héldu heimamönnum engin bönd og komust þeir mest tíu mörkum yfir 26-16. Uppstilltur sóknarleikur Íslands var slakur og varnarleikurinn nánast ekki til staðar.
Síðustu mínúturnar náðu strákarnir aðeins að klóra í bakkann en sigur Svía hefði hæglega getað verið stærri.
Íslenska liðið spilaði án fjögurra lykilmanna í kvöld, en þeir Aron Pálmarsson, Guðjón Valur Sigurðsson, Alexander Petersson og Arnór Atlason voru allir hvíldir.
Leikmenn sem eru að reyna að vinna sér inn sæti í lokahópnum fengu að spreyta sig í kvöld, en Aron Kristjánsson mun líklega velja lokahópinn eftir leikinn í kvöld.
Taka verður mið af, að liðin mætast aftur í riðlakeppni HM 2015 þar sem þau eru einnig í riðli með Alsír, Frakklandi, Tékklandi og Egyptalandi.
