Innlent

Nýi sjávarútvegurinn græði á afnámi hafta

Svavar Hávarðsson skrifar
Mest ber á fjárfestingu í skipum en fleira kemur til.
Mest ber á fjárfestingu í skipum en fleira kemur til. fréttablaðið/vilhelm
Með afnámi fjármagnshafta má fastlega gera ráð fyrir að meira fjármagn leiti í hinar nýju greinar sjávarútvegsins frá erlendum fjárfestum; til sjávarlíftækni, vinnslu afurða úr aukahráefni og ýmiss konar fullvinnslu.

Áætla má að fjárfestingar í nýjum búnaði og nýsköpun hvers konar í sjávarklasanum nemi um 15-25 milljörðum króna á ári á næstu árum.

Þetta kemur m.a. fram í nýrri greiningu Íslenska sjávarklasans um fjárfestingar í sjávarútvegi sem hafa stóraukist að undanförnu.

Haukur Már Gestsson
„Miðað við áhuga erlendra fjárfesta á ýmsum nýsköpunarverkefnum þrátt fyrir höftin, er alveg klárt að þær munu verða umtalsverðar þegar fram líða stundir. Lítil og vaxandi fyrirtæki í líftækni og ýmiss konar vinnslu- og veiðitækni munu njóta góðs af frjálsu flæði fjármagns til landsins. Á sama tíma er ekki ólíklegt að frelsi til að flytja fjármagn úr landi hvetji stærri tæknifyrirtæki til að sækja fram á erlendum mörkuðum,“ segir Haukur Már Gestsson, hagfræðingur Sjávarklasans, en greininguna unnu ásamt honum þeir Bjarki Vigfússon, hagfræðingur Sjávarklasans, og Þór Sigfússon, framkvæmdastjóri hans.



Mest hafa verið áberandi fjárfestingar í nýjum skipum að undanförnu og Haukur telur að þær muni halda áfram þó ekki verði af jafn miklum krafti. Stærri sjávarútvegsfyrirtæki eru á bak við þá fjárfestingu sem mun nema í það minnsta 33,5 milljörðum króna á næstu þremur árum, samkvæmt Hagsjá Landsbankans og vísað er til í greiningunni. Verið er að smíða ellefu nýja togara fyrir íslenskar útgerðir, þar af átta ísfisktogara, tvö uppsjávarskip og einn frystitogara.




„Að stórum hluta voru fjárfestingar í nýjum skipum orðnar óumflýjanlegar. Eftir nokkurra ára óvissu og deyfð hrannast þessar fjárfestingar nú inn. Hins vegar er enn til staðar svigrúm til áframhaldandi fjárfestinga í nýjum skipum og aðlögun eldri skipa að breyttu veiðimynstri,“ segir Haukur.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×