Innlent

Segir ríkið sýna ábyrgðarleysi

Páll Halldórsson.
Páll Halldórsson.
„Það er ábyrgðarleysi ef menn reyna ekki til þrautar að semja áður en kemur til áfloga,“ segir Páll Halldórsson, formaður Bandalags háskólamanna. Samninganefndir BHM og ríkisins funduðu í gærmorgun án þess að viðræðum miðaði áfram.

Páll segir að samninganefnd ríkisins hafi boðað til fundar aftur í næstu viku. „Það skella á verkföll í næstu viku og ríkið virðist ekki hafa áhuga á að koma í veg fyrir þau,“ segir Halldór „Ríkið hefur ekki komið með neitt tilboð en þetta snýst einfaldlega um að það komi einhverjir fjármunir í þetta.“

Kröfugerð BHM hefur legið fyrir frá því í janúar og Páll segir að viðræðurnar séu í raun framhald frá viðræðunum í fyrra en að ríkið bjóði ekkert umfram 3,5 prósenta launahækkun. Ef ekkert þokast áfram eru verkfallsaðgerðir óumflýjanlegar. „Fólk virðist vera að draga þann lærdóm að ef eitthvað á að miða áfram í þessum málum þá þurfi átök til, við sjáum til dæmis að Starfsgreinasambandið hefur einnig boðað til aðgerða,“ segir Páll.

BHM hefur boðað til verkfalla á þriðjudag en deilt hefur verið um lögmæti þeirra. Vonast er til að úrskurður um lögmæti verkfallanna liggi fyrir á mánudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×