Innlent

Nanna Elísa nýr formaður Landssamtaka íslenskra stúdenta

Atli Ísleifsson skrifar
Nanna Elísa Jakobsdóttir tekur við formannsembættinu af Jórunni Pálu Jónasdóttur.
Nanna Elísa Jakobsdóttir tekur við formannsembættinu af Jórunni Pálu Jónasdóttur. Mynd/LÍS
Nanna Elísa Jakobsdóttir var kjörin formaður Landssamtaka íslenskra stúdenta (LÍS) á árlegu landsþingi samtakanna sem fram fór um síðustu helgi.

Þingið var haldið í Héraðsskólanum á Laugarvatni og yfirskrift þess var „Alþjóðavæðing háskólastigsins“. Þingið sátu um fimmtíu fulltrúar frá átta aðildarfélögum LÍS.

Allir háskólar á landinu auk Sambands íslenskra námsmanna erlendis eiga aðild að samtökunum eftir að aðildarumsókn Nemendafélags Hólaskóla var samþykkt í upphafi nýafstaðins landsþings. Fram að þessu hefur félagið átt áheyrnarfulltrúa í framkvæmdastjórn.

Leystu hindranir á alþjóðavæðingu háskólanna

Í tilkynningu frá samtökunum segir að umræðan á þinginu hafi snúist að alþjóðastarfi háskólanna, um þann ávinning sem hlýst af alþjóðastarfi innan háskólasamfélagsins auk þeirra áskorana sem það stendur frammi fyrir. „Loks veltu fulltrúar aðildarfélaganna fyrir sér mögulegum lausnum á þeim vandamálum sem heftir alþjóðavæðingu háskólastigsins. Vinnuna leiddi María Kristín Gylfadóttir stjórnandi hjá RANNÍS yfir Erasmus+ í samstarfi við fulltrúa framkvæmdastjórnar LÍS og fráfarandi formann.“

Nanna Elísa tekur við formannsembættinu af Jórunni Pálu Jónasdóttur, laganema. „Nanna Elísa gegndi stöðu varaformanns LÍS á síðastliðnu starfsári en hún lauk nýverið við BA-gráðu í lögfræði við Háskóla Íslands. Nanna hefur tekið þátt í hagsmunabaráttu stúdenta um nokkurt skeið, hún situr meðal annars í háskólaráði Háskóla Íslands, er áheyrnarfulltrúi í Stúdentaráði Háskóla Íslands, var framkvæmdastjóri Orator félags laganema árið 2013-2014 og sat sem varaformaður Vöku sama ár.

Auk hennar tilnefndu aðildarfélögin nýja fulltrúa í framkvæmdastjórn samtakanna en skipað er til tveggja ára. Í henni sitja nú:

Þórunn Unnur Birgisdóttur og Ívar Örn Þráinsson fyrir Nemendafélagið á Bifröst, Valdemar Karl Kristinsson og Guðbjörn Ólsen Jónsson fyrir Félag stúdenta við Háskólann á Akureyri, Iona Sjöfn Huntingdon-Williams og Rebekka Líf Albertsdóttir fyrir Nemendaráð Listaháskóla Íslands, Jakob Wayne Víkingur Róbertsson og Jóhann Már Berry fyrir Nemendafélag Landbúnaðarháskóla Íslands, Baldur Ólafsson og Sigrún Dögg Kvaran fyrir Samband íslenskra námsmanna erlendis, Helgi Sigurðsson, María Gyða Pétursdóttir fyrir Nemendafélag Hólaskóla og Árni Þórólfur Árnason fyrir Stúdentafélag Háskólans í Reykjavík.

Stúdentaráð Háskóla Íslands og Stúdentafélag Háskólans í Reykjavík fengu frest til þess að tilnefna fasta fulltrúa til 1. maí þar sem kosningar eru nýafstaðnar í aðildarfélögunum og ný stjórn ekki haft umboð til að koma sér saman um fulltrúa. SHÍ kemur til með að skipa tvo nýja fulltrúa í framkvæmdastjórn þar sem Nanna Elísa sat áður sem fulltrúi SHÍ og átti eftir ár af skipunartíma sínum.

Samræming gæðastarfs og hagsmunagæsla

Hlutverk Landssamtaka íslenskra stúdenta er að standa vörð um hagsmuni háskólanema hérlendis sem og hagsmuni íslenskra háskólanema á alþjóðavettvangi. Samtökin skapa samstarfsvettvang fyrir íslensk stúdentafélög og  taka þátt í alþjóðlegu hagsmunasamstarfi háskólanema. Auk þess vinna þau að samræmingu gæðastarfs í íslenskum háskólum. Samtökin voru stofnuð árið 2013 á Akureyri,“ segir í tilkynningunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×