Innlent

Tefla í afskekktasta þorpi Grænlands

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Drengur í Ittoqqortormiit ánægður við taflborðið.
Drengur í Ittoqqortormiit ánægður við taflborðið. Mynd/Hrókurinn
Skákhátíð Hróksins í Ittoqqortoormiit, afskekktasta þorpi Grænlands, hófst á skírdag með fjöltefli Hrafns Jökulssonar við börn og ungmenni í bænum. Í þorpinu búa liðlega 400 manns en það er á 70. breiddargráðu á austurströnd landsins.

Hrókurinn hefur heimsótt Ittoqqortormiit um hverja páska í áratug, og er skákkunnátta hvergi jafn almenn á Grænlandi.

Hátíðin í Ittoqqortoormiit stendur alla páskana. Á föstudag verður haldið stórmót um meistaratign bæjarins og fá öll börnin þá páskaegg og fleiri vinninga.

Á laugardag verður Norlandair-mótið haldið og þar verða vinningar frá prjónahópi Rauða krossins og íslenskum fyrirtækjum, auk þess sem öll börn fá glaðning frá Nóa Síríus. Á mánudag verður svo haldinn ,,Dagur vináttu Íslands og Grænlands".

Samhliða skákhátíðinni er haldinn myndasamkeppni Hróksins og Pennans, þar sem börnin í bænum eru beðin um að draga upp myndir úr sínu daglega lífi. Hróksmenn mættu til bæjarins með myndir sem 5 ára stúlkur í Leikskólanum Öskju teiknuðu fyrir börnin í Ittoqqortoormiit og hafa þær vakið mikla athygli í bænum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×