Innlent

Sjávarútvegurinn í alþjóðlegt markaðsátak

Svavar Hávarðsson skrifar
Íslendingar fá 40% hærra verð fyrir sínar afurðir en Norðmenn – engin þjóð þénar jafn mikið hlutfallslega á sjávarútvegi og er á sama tíma jafn háð fiskveiðum.
Íslendingar fá 40% hærra verð fyrir sínar afurðir en Norðmenn – engin þjóð þénar jafn mikið hlutfallslega á sjávarútvegi og er á sama tíma jafn háð fiskveiðum. fréttablaðið/jse
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) samþykktu á aðalfundi sínum í gær að ráðast í herferð til markaðssetningar íslensks sjávarfangs. Það verður gert undir yfirskriftinni „Fiskur frá Íslandi“ og beinist beint að neytendum. Möguleikarnir til að auka verðmæti sjávarfangs héðan virðast gríðarlegir en verkefnið er hugsað til langs tíma. Þetta kom fram á ráðstefnu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) á föstudag, þar sem markaðssetning og aukin verðmæti sjávarafurða voru í forgrunni.

Kolbeinn Árnason
Nálgun Kolbeins Árnasonar, framkvæmdastjóra SFS, að verkefninu í erindi sínu var allrar athygli verð. Íslendingum er tamt að vega og meta árangur sinn í fiskveiðum í tonnum, en hann benti á að á hverjum degi framleiðir íslenskur sjávarútvegur sem nemur 20 milljónum máltíða á mörkuðum okkar með sjávarfang. Þó að hans mati sé flest vel gert við veiðar, vinnslu og sölu á sjávarfangi á Íslandi þá sé ástæða til að taka markaðsmálin „alvarlega til skoðunar“, enda beri greininni að gera sífellt betur þegar ábyrgð hennar gagnvart íslensku samfélagi sé höfð hugföst. Hann tiltók að íslenskur sjávarútvegur væri sá eini í OECD-löndunum sem skilar meiru til samfélagsins en hann þiggur í formi ríkisstyrkja.

Helga Thors, markaðsstjóri SFS, gerði grein fyrir ákvörðun aðalfundar samtakanna í gær – að ráðast í markaðsátak eða herferð. Nokkuð sem hefur verið í undirbúningi um skeið.

Helga sagði að í sem einföldustu máli væri takmarkið að auka verðmætin. Til þess yrði lögð áhersla á sérkenni lands og þjóðar og okkar villta fisk, sjálfbærni veiðanna, tækni og nýsköpun. „Við höfum frábæra sögu að segja en við höfum ekki verið að segja hana markvisst hingað til,“ sagði Helga og bætti við að þrátt fyrir velgengni höfum við sjálf ekki stjórn á vörumerkinu„Fiskur frá Íslandi“, en um 99% af öllu sjávarfangi veiddu á Íslandsmiðum eru flutt út – en 90% af því magni fara fyrst í hendurnar á milliliðum hvers konar. „Nú ætlum við að tala við neytendur beint.“

Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra sagði í sínu erindi að telji greinin eftirsóknarvert að fá liðsinni stjórnvalda við markaðssetningu þá sé hann boðinn og búinn til að vinna að því á sínum vettvangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×