Innlent

Kúguðu milljón af öldruðum bónda

Sveinn Arnarsson skrifar
Fjöldi smáhluta sem erfitt var að koma í verð fundust daginn eftir atburðinn við Goðafoss skammt frá heimili mannsins.
Fjöldi smáhluta sem erfitt var að koma í verð fundust daginn eftir atburðinn við Goðafoss skammt frá heimili mannsins. Fréttablaðið/GVA
Þrír einstaklingar, tveir karlar og ein kona, játuðu fyrir héraðsdómi Norðurlands eystra að hafa farið inn á heimili áttræðs karlmanns í Þingeyjarsveit í apríl í fyrra og haft í hótunum við hann. Var greiðslukort mannsins tekið ófrjálsri hendi sem og fjöldi smáhluta og reynt að milli færa eina milljón króna af heimabanka mannsins. Sakborningar voru allir í mikilli vímuefnaneyslu þetta umrædda kvöld.

Þremenningarnir, sem höfðu verið að skemmta sér vegna afmælis konunnar, bönkuðu upp á hjá manninum, sem er bóndi í Þingeyjarsveit, um átta um kvöldið. Töldu þau að hann skuldaði konunni, sem er á þrítugsaldri, fjármuni vegna gamalla saka. Hann yrði að borga konunni ellegar hljóta verra af. Fórnarlambið er fætt árið 1935 og átti því við ofurefli að etja.

Mennirnir tveir þekktu ekki til mannsins en konan hafði verið í sveit á sama bæ og hann þegar hún var yngri. Hafði hann misnotað hana kynferðislega og hlotið dóm fyrir. Þessir atburðir höfðu lagst þungt á konuna sem vildi á þessum tíma fá greiddar bætur frá manninum.

Nokkur hluti fjárkúgunarinnar af öldungnum var eitt meginsönnunargagn fyrir dómi síðastliðinn föstudag. Einn sakborninganna tók um 20 mínútna langan bút upp sem hljóðskrá og var hluti hennar spilaður fyrir réttinum. Í því hljóðbroti heyrist hvar þau hóta ellilífeyrisþeganum að ef hann gengi ekki að kröfum þeirra myndu aðrir menn koma í málið sem búsettir væru á höfuðborgarsvæðinu. Einnig sagði konan að vegna óuppgerðra saka við manninn skyldi hún kæra hann fyrir nauðgun sem þau myndu nota gegn honum.

Fórnarlambið sagðist fyrir rétti hafa ætlað á söngskemmtun þetta kvöld en ekki komist þar sem þau héldu honum inni í eldhúsi hjá sér og voru nokkuð ör. Höfðust þau við í íbúðinni í tæpar þrjár klukkustundir. Höfðu þau ýmislegt lauslegt á brott með sér og reyndu að millifæra eina milljón eins og áður segir í heimabanka mannsins.

Greiðslukort mannsins notuðu þau til að kaupa áfengi á Akureyri að lokinni árásinni. Eru þau kærð fyrir fjárkúgun, gripdeild og ógnanir sem þau höfðu í frammi við ellilífeyrisþegann. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×