Innlent

Dreifa upplýsingum um farþega

Samúel Karl Ólason skrifar
Í hópnum var að finna umræðu um að forðast tiltekinn farþega þar sem hann var smitaður af HIV.
Í hópnum var að finna umræðu um að forðast tiltekinn farþega þar sem hann var smitaður af HIV. Vísir/Vilhelm
Hópur leigubílsstjóra hefur verið kærður til Persónuverndar vegna lokaðs Facebook-hóps. Þar eru mennirnir sagðir hafa dreift upplýsingum um farþega sína. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Leigubílstjórarnir eru sagðir hafa deilt leynilegri myndbandsupptöku, myndum af skilríkjum farþega, upplýsingum um að leigubílstjórar taki síma og vegabréfi í „pant“ og myndum af farþegum.

Þar að auki segir í Morgunblaðinu að þar sé að finna umræður um tiltekinn farþega og að hann beri að varast, þar sem hann er smitaður af HIV.

Persónuvernd barst kæra í gær og hefur hún ekki verið tekin fyrir. Framkvæmdastjóri Hreyfils-Bæjarleiða segir við Morgunblaðið að hópurinn tengist stöðinni ekki með nokkrum hætti og að forsvarsmönnum síðunnar sé óheimilt að nota nafn stöðvarinnar. Hópurinn heitir Hreyfill-Bæjarleiðir.

Uppfært 13:30

Meðlimur í hópnum sem hafði samband við Vísi, sagði að búið væri að taka síðuna niður. Þar hefði upplýsingum og myndum úr öryggismyndavélum leigubíla af almennum farþegum ekki verið dreift. Þess í stað hefðu verið settar inn myndir af fólki sem ítrekað stingi leigubílstjóra af án þess að greiða eða jafnvel hóti þeim með sprautunálum.

Hann sagði helsta markmið hópsins hafa verið að vara afleysingafólk við nokkrum slíkum einstaklingum. Þar að auki sagði hann að þær myndir sem hafi verið birtar hafi ekki komið úr öryggiskerfi bílanna heldur hafi þær verið teknar á síma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×