Innlent

Samstarf um átak gegn heimilisofbeldi

Sveinn Arnarsson skrifar
Halla Bergþóra og Eiríkur Björn segja samstarfið skipta miklu máli.
Halla Bergþóra og Eiríkur Björn segja samstarfið skipta miklu máli. Fréttablaðið/Auðunn
Akureyrarbær og embætti lögreglustjórans á Norðurlandi eystra hafa skrifað undir samkomulag um átak gegn heimilisofbeldi. Samningur þess efnis var undirritaður í gær í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri. Samstarfið er í grunninn byggt á reynslu af samstarfi lögreglunnar á Suðurnesjum.

Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri og Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra, undirrituðu samkomulagið. „Þetta er mjög mikilvægt, við sjáum það á reynslu annarra sveitarfélaga að þetta hefur verið að gefast vel, síðan á eftir að koma í ljós hvernig þetta reynist okkur. Mér finnst sjálfsagt og eðlilegt að leita allra leiða til að uppræta svona hluti og við þurfum að leggja okkar af mörkum til að gera slíkt,“ segir Eiríkur Björn.

Halla Bergþóra segir verkefnið byggt á nýjum verklagsreglum Ríkislögreglustjóra í þessum efnum „Vonandi nær þetta átak svo til fleiri sveitarfélaga, vítt og breitt um landið. Kannski á það eftir að þróast þannig að þetta verði hluti af starfi lögreglunnar, við vonum það allavega,“ segir Halla Bergþóra. „Fyrst og fremst er þetta mikilvægt fyrir íbúa, að styðja þá og styrkja. Við sýnum síðan styrk okkar og festu og viljum taka á þessu meini. Við viljum vernda almannahagsmuni með því að ákæra í þessum málum og leiða þau til lykta.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×