Innlent

Reyna ekki mokstur í bráð

Gissur Sigurðsson skrifar
Vísir/Hafþór
Súðavíkurhlíð og Kirkjubólshlíð var lokað klukkan tíu í gærkvöldi vegna snjóflóðahættu og verður ekki reynt að moka þær í bráð. Hávaða rok er nú á Vestfjörðum og klukkan þrjú í nótt fór að snjóa og snjóar enn.

Allir fjallvegir eru að líkindum lokaðir og ekki verður reynt að ryðja fyrr en veður lægir og búið verður að meta snjóflóðahættu.

Skólaakstur í Ísafjarðarbæ fellur niður í dag og sömu sögu er að segja af strætisvagnaferðum á svæðinu.

Hátt í 20 hús voru rýmd á Patreksfirði í gær vegna snjóflóðahættu og þar féll eitt flóð án þess að valda tjóni og í gærkvöldi voru nokkur hús rýmd á Tálknafirði af sömu sökum.

Ekki er vitað hvort einhver flóð hafa fallið í nótt, enda ekkert skyggni í snjókófinu og það er spáð vitlausu veðri vestra fram eftir degi. Snjóflóðadeild Veðurstofunnar er að funda um ástandið vestra þessa stundina og Almannavarnir fylgjast grannt með framvindu mála.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×