
Flóttamannavandinn í Evrópu – hvað er til ráða?
Davíð Stefánsson orti samnefnt ljóð um prest sem braut niður kirkjuna í eldivið handa fátæklingum til að halda á sér hita í vetrarkulda.
Ég vil sjá íslensku þjóðkirkjuna opna „flóttamannamiðstöð“ miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu, t.d. í Hallgrímskirkju, og veita þar fyrstu hjálp fyrir 1.015 flóttamenn, einn fyrir hvert ár frá kristnitöku.
Er þetta hægt?
Þegar íbúafjöldi landsins var rétt inna við 150 þús. komu um 330 þýskar flóttakonur til Íslands, dreifðust um sveitir landsins og auðguðu þær með vinnuframlagi sínu, kunnáttu og menningu. Sjálf er ég dóttir einnar þeirrar. Miðað við núverandi íbúafjölda væri samsvarandi fjöldi flóttamanna 750.
Í kjölfar Heimaeyjargossins 1973 voru 5.000 manns fluttir upp á land, sem var um 2,5% íbúafjöldans. Með samhug þjóðar og góðu skipulagi tókst vel að taka við þeim fjölda.
Hvar á að fá mat?
Um 30% af þeim matvælum sem framleidd eru í dag enda í ruslinu. Flest okkar borða a.m.k. 10% meira en við þurfum. Notum umframmat til að elda máltíðir fyrir flóttafólkið án auka hráefniskostnaðar. Súpueldhús og sjálfboðastörf sóknarbarna er svarið.
Hvar á að fá húsnæði?
Til bráðabirgða mætti nota Hallgrímskirkju og Laugardalshöll, útbúa kynjaskipt svefnpokapláss, setja upp útikamra, baðaðstaða er í sundlaugum. Síðan myndi fólkið smám saman flytjast út um landið til sveitarfélaga sem bjóða aðstoð.
Hvar á að fá fatnað?
Íslendingar hafa verið duglegir að gefa föt í safnanir til fólks í fjarlægum löndum, við erum laus við flutningskostnað þegar fólkið er á staðnum.
Hvernig á að greiða kostnaðinn?
Marga Íslendinga dreymir um að vinna hjálparstörf erlendis, hér væri kjörið tækifæri til sjálfboðastarfa í eigin landi. Með því að hafa flóttamannamiðstöð miðsvæðis eins og í Hallgrímskirkju væri hægt að vekja athygli og áhuga ferðamanna á að leggja eitthvað af mörkum í formi fjár og vinnustunda. Eflaust myndi flóttafólkið sjálft líka hjálpa til. Leita mætti til íslenskra stórfyrirtækja um framlög, ég nefni t.d. Hval hf. og Sjóklæðagerðina hf. – 66°N. Einstaklingar sem eru með meira en milljón krónur í tekjur á mánuði gætu verið aflögufærir um smáupphæð.
Hver á að sjá um skipulagið?
Hjá Rauða krossinum, Hjálparstofnun kirkjunnar, Viðlagasjóði, Almannavörnum og björgunarsveitum er fólk með þekkingu og reynslu til að skrá og skipuleggja móttöku og innleiðingu flóttamanna í íslenskt samfélag.
Hvað með útlits- og menningarmun?
Margir Íslendingar eiga framandi gæludýr, Labrador- og Huskyhunda, Bengal- og norska skógarketti sem eru afar ólíkir íslenska fjárhundinum og fjósakettinum.
Dýrin vekja aðdáun og athygli og eigendur þeirra hampa þeim á sýningum. Hvers vegna ætti eitthvað annað að gilda um manneskjuna?
Allra þjóða ríkt og frægt fólk er velkomið til landsins og má vera eins lengi og það kýs. Fjölmiðlar kalla það „Íslandsvini“ og fólk deilir hreykið myndum af sér með því, en þegar málið snýst um fátæka flóttamenn (sem kannski voru frægir listamenn, vísindamenn eða bara mannvinir, foreldrar eða börn í sínu heimalandi) breytist mannauðurinn í vandamál. Hættum að flokka fólk.
Hvað „græðum“ við á að taka við þessu fólki?
Fólk á flótta, rekið að heiman með stríðsógn er að bjarga lífi sínu og sinna og leita að friði, frelsi og mannúð. Hvílíkur heiður fyrir Evrópubúa að það skuli stefna til okkar í leit að þessum lífsgæðum! Sýnum að við rísum undir væntingum þeirra og tökum þeim fagnandi af jákvæðni, kærleika og stórhug.
Leggjum okkar „ómerkilegu lúxusvandamál“ (miðað við þeirra) til hliðar um stund og finnum gleðina af að hjálpa fólki í neyð. Seinna mun flóttafólkið okkar, mannauðurinn, skila sínu framlagi til samfélagsins og örugglega greiða „skuld“ sína margfalt til baka.
Kemur þetta kirkjunni við?
Íslenska þjóðkirkjan á undir högg að sækja bæði andlega og veraldlega. Hlutverk hennar hefur breyst og afstaða okkar til hennar. Stofnanir ríkisins og mannréttindasamtök sjá nú um þætti velferðar sem kirkjan kom að áður. Samkvæmt mælingum telja um 50% Íslendinga sig trúaða. Að vera kristinn og í þjóðkirkjunni ætti ekki að einkennast af að mæta puntaður í kirkju á sunnudögum og í skírnir, fermingar, brúðkaup og jarðarfarir þegar við á, heldur einnig að sýna samhug og kærleika í verki þegar þarf að hjálpa okkar „minnstu bræðrum“, burtséð frá þjóðerni og trú.
Eitt erindið í ljóði Davíðs Stefánssonar sem ég vitnaði til hljóðar svo:
„Í þyngstu raunum reynast verkin betur
en ritningin og gamalt fræðaletur.“
Kemur þetta mér við?
Sumum kann eflaust að finnast þessi framsetning mín á verkefninu „flóttamannahjálp“ of mikil einföldun. Við þá vil ég segja þetta: „Þegar málið snýst um líf og dauða fólks er ekki tími til að greina vandann í öreindir, það verður að ganga strax í verkið og leysa úr smáatriðunum, þá og þegar þau koma upp. Ég er tilbúin að leggja mitt af mörkum. Hvað um þig?“
Skoðun

Af hverju skiptir vökvagjöf okkur svona miklu máli?
Hanna Birna Valdimarsdóttir skrifar

Gervigreindin kolfellur á öllum prófum. Er bólan að bresta?
Brynjólfur Þorvarðsson skrifar

Kerfisbundið afnám réttinda kvenna — Staða afganskra kvenna 4 árum eftir valdatöku talíbana
Ólafur Elínarson,Anna Steinsen skrifar

Hér er það sem Ágúst sagði ykkur ekki
Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Framtíð íslensks menntakerfis – lærum af Buffalo og leiðandi háskólum heims
Sigvaldi Einarsson skrifar

Öryggismenning – hjartað í ábyrgri ferðaþjónustu
Ólína Laxdal,Sólveig Nikulásdóttir skrifar

Nýsamþykkt aðgerðaáætlun í krabbameinsmálum – aldrei mikilvægari en nú
Halla Þorvaldsdóttir skrifar

Falið heimsveldi Al Thani-fjölskyldunnar
Finnur Th. Eiríksson skrifar

Við styðjum Ingólf Gíslason og annað starfsfólk í akademískri sniðgöngu
Elía Hörpu og Önundarbur,Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir,Íris Ellenberger,Sjöfn Asare skrifar

Hið landlæga fúsk
Helga Sigrún Harðardóttir skrifar

Þetta þarftu að vita: 12 atriði
Ágúst Ólafur Ágústsson skrifar

Ég frétti af konu
Gunnhildur Sveinsdóttir skrifar

Rangfærslur ESB-sinna leiðréttar
Diljá Mist Einarsdóttir skrifar

Eineltið endaði með örkumlun
Davíð Bergmann skrifar

Akademísk kurteisi á tímum þjóðarmorðs
Finnur Ulf Dellsén skrifar

Við megum ekki tapa leiknum utan vallar
Eysteinn Pétur Lárusson skrifar

Börnin heyra bara sprengjugnýinn
Hjálmtýr Heiðdal skrifar

Gagnslausa fólkið
Þröstur Friðfinnsson skrifar

Tjáningarfrelsi
Laufey Brá Jónsdóttir,Sigríður Kristín Helgadóttir,Þorvaldur Víðisson skrifar

Allt mun fara vel
Bjarni Karlsson skrifar

Normið á ekki síðasta orðið
Katrín Íris Sigurðardóttir skrifar

Ég er eins og ég er, hvernig á ég að vera eitthvað annað?
Sigrún Ólöf Ingólfsdóttir skrifar

Við lifum á tíma fasisma
Una Margrét Jónsdóttir skrifar

Örvæntingarfullir bíleigendur í frumskógi bílastæðagjalda
Kolbrún Áslaugar Baldursdóttir skrifar

Hinir miklu lýðræðissinnar
Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Kolefnishlutleysi eftir 15 ár?
Hrafnhildur Bragadóttir,Birna Sigrún Hallsdóttir skrifar

Gleði eða ógleði?
Haraldur Hrafn Guðmundsson skrifar

Tískuorð eða sjálfsögð réttindi?
Vigdís Ásgeirsdóttir skrifar

Ráðherrann og illkvittnu einkaaðilarnir
Freyr Ólafsson skrifar

Áttatíu ár frá Hírósíma og Nagasakí
Snæbjörn Guðmundsson skrifar