Innlent

Segir HSU ekki standa við samninga

Sveinn Arnarson skrifar
Skert þjónusta heilsugæslunnar hefur mikil áhrif á búsetuskilyrði í Rangárþingi eystra. Íbúar vilja hafa opið alla daga ársins.
Skert þjónusta heilsugæslunnar hefur mikil áhrif á búsetuskilyrði í Rangárþingi eystra. Íbúar vilja hafa opið alla daga ársins. Fréttablaðið/Vilhelm
Íbúar á Hvolsvelli og nærsveitum eru ósáttir við opnunartíma heilsugæslunnar í bænum.

Heilsugæslan var lokuð frá því í júní og þar til nýverið vegna fyrirhugaðra framkvæmda sem síðan urðu aldrei að veruleika. Ísólfur Gylfi Pálmason, sveitarstjóri Rangárþings eystra, telur einnig heilbrigðisstofnun Suðurlands ekki standa við samninga sem gerðir hafa verið.

Á hverju sumri er annaðhvort heilsugæslunni á Hvolsvelli eða á Hellu lokað til að nýta betur mannskap og minnka sumarafleysingar. Í sumar var heilsugæslunni á Hvolsvelli lokað en í stað þess að opnað væri aftur 1. september eins og verið hefur síðustu ár var ekki opnað fyrr en í byrjun vikunnar. Einnig var opnunartíminn styttur og aðeins opið þrjá daga í viku.

Ástæður þess að ekki var opnað fyrr en núna í vikunni voru þær að fyrirhugaðar voru framkvæmdir við húsnæði heilsugæslunnar. Í ljós kom að engar framkvæmdir við húsnæðið hafa verið unnar á þessum tíma.

Ísólfur Gylfi Pálmason sveitarstjóri
Hjörtur Kristjánsson, framkvæmdastjóri lækninga á HSU, segir það ekki hafa komið til af góðu að ekki hafi verið framkvæmt við heilsugæsluna. „Það stóð til að breyta húsnæðinu en við fengum ekki verktaka í þetta. Síðan verður tíminn að leiða í ljós hvenær við getum farið í þessi verk.“

Ísólfur Gylfi segir tvo verktaka á Hvolsvelli með samninga við Ríkiskaup en Heilbrigðisstofnunin hafi rætt við hvorugan. „Sveitarfélagið er einnig með samning við heilsugæsluna um að starfsmenn geti mætt milli átta og níu á morgnana og sveitarfélagið greiðir fyrir þá þjónustu. Það er ekki verið að standa við þá samninga með því að stytta opnunartímann,“ segir Ísólfur Gylfi.

Ísólfur Gylfi minnir á að sveitarfélagið hafi sent frá sér harðorða ályktun um stöðu heilsugæslunnar og þrýstir á Heilbrigðisstofnunina að lengja opnunartímann á ný. Íbúar séu margir hverjir ósáttir við þessa skertu þjónustu sem komi sér verst fyrir þá íbúa sem búa á svæðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×