Innlent

Beðið meðan ESA grúskaði

guðsteinn bjarnason skrifar
Ríkið kaupir fjölmarga flugfarmiða á ári hverju handa starfsmönnum sínum, sem þurfa að erindast til útlanda í margvíslegum tilgangi.
Ríkið kaupir fjölmarga flugfarmiða á ári hverju handa starfsmönnum sínum, sem þurfa að erindast til útlanda í margvíslegum tilgangi. Fréttablaðið/Vilhelm
Fjármálaráðuneytið taldi ekki rétt að hefja útboð á flugfarmiðum á meðan Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, var enn að fjalla um málið. ESA tók farmiðaútboð ríkisins til umfjöllunar vegna kvörtunar sem barst frá flugfélaginu Iceland Express.

Að sögn Elvu Bjarkar Sverrisdóttur, fjölmiðlafulltrúa fjármálaráðuneytisins, stóð aldrei annað til en að útboð á farmiðum vegna ferða ríkisstarfsmanna til og frá landinu færi fram að nýju. Þó sé ljóst að það verði gert með öðrum hætti en áður.

„Hvað fyrirhugað útboð snertir hefur verið til skoðunar hvaða form væri heppilegast til að tryggja sem best kjör og þar með hag ríkissjóðs,“ segir Elva Björk. „Niðurstaðan er að skoða annað útboðsform en rammasamning. Það skýrir að í auglýsingu á rammasamningsútboði Ríkiskaupa sem var birt 28. febrúar voru farmiðakaup ekki á lista.“

Hún segir jafnframt að Ríkiskaup vinni um þessar mundir að undirbúningi almenns útboðs á tilteknum flugleiðum.

Í Fréttablaðinu á laugardaginn var haft eftir Ólafi Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda, að ríkið hefði dregið lappirnar í þessu máli í rúm tvö ár. Félagið hafi áður gagnrýnt að þrátt fyrir lagaskyldu hafi ríkið ekki boðið út flugfarmiða.

Í tilkynningu frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu í síðustu viku kom fram að útboð á farmiðum fór síðast fram árið 2011.

„Stofnunin lauk umfjöllun sinni um málið um mitt ár 2014, með þeirri niðurstöðu að engin ríkisaðstoð fælist í kaupum á ferðum á vegum ríkisins hjá Icelandair,“ segir Elva Björk. „Þar sem kvörtun Iceland Express til ESA laut meðal annars að útboðsferlinu þótti ekki rétt að hefja útboðsferli að nýju meðan málið var til meðferðar þar.“

Hvorki Icelandair né WOW air vilja tjá sig mikið um þessi útboðsmál að svo stöddu.

„Við höfum ekkert komið að þessu á neinn hátt,“ segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Icelandair. „Við bíðum bara eftir því að sjá skilmála útboðsins og skoðum þá málið.“

WOW air fagnar því hins vegar að nýtt útboð sé væntanlegt; „Við fögnum þessari niðurstöðu og treystum því að allir fái að sitja við sama borð,“ segir Svanhvít Friðriksdóttir, upplýsingafulltrúi WOW air.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×