Innlent

Finnst þeir læra fyrir kennara og foreldra

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Elísabet Jónsdóttir, kennari á unglingastiginu í Lágafellsskóla í Mosfellsbæ, væntir þess að geta breytt viðhorfi nemenda til námsins með kennslu í markmiðasetningu.
Elísabet Jónsdóttir, kennari á unglingastiginu í Lágafellsskóla í Mosfellsbæ, væntir þess að geta breytt viðhorfi nemenda til námsins með kennslu í markmiðasetningu. FRÉTTABLAÐIÐ/GVA
„Það er oft eins og nemendum finnist þeir vera að læra fyrir kennarann eða mömmu og pabba. Þeir gera sér ekki grein fyrir því að þeir eru að þessu fyrir sig. Ég hef oft hugsað um hvernig hægt sé að breyta þessu viðhorfi þeirra.“ Þetta segir Elísabet Jónsdóttir, sem kennir íslensku og lífsleikni á unglingastiginu í Lágafellsskóla í Mosfellsbæ.

Þegar Elísabet fór á námskeið í markþjálfun kviknaði hjá henni hugmynd um að kenna markmiða­setningu á unglingastiginu. Hún sótti um styrk hjá Sprotasjóði til að búa til nýja valgrein og hefst kennslan eftir áramót. Nú þegar hafa tæplega 40 nemendur í 9. og 10. bekk skráð sig í námið.

„Ég er búin að vera kennari í mörg ár og einnig deildarstjóri. Mér finnst nemendur ekki taka nægilega ábyrgð. Ég vænti þess að eftir nám í markmiðasetningu uppgötvi þeir að þeirra er ábyrgðin á náminu og að þeirra er valið út frá eigin styrkleika og áhugasviði. Áherslan verður á að kenna nemendum að setja sér markmið,“ segir Elísabet.

Hún sér fyrir sér að markmiða­setning verði ekki bara valgrein í framtíðinni heldur sjálfstætt fag. Í Lágafellsskóla er lífsleikni sjálfstæð námsgrein en ekki hluti af samfélagsfræði, sem hún er samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla.

Í lífsleikni kynnast nemendur alls kyns málefnum sem lúta að daglegu lífi, að því er Elísabet greinir frá. „Þeir fá fræðslu um mannréttindi, það er unnið með sjálfsöryggi og námstækni. Kynfræðsla, fjármálalæsi, forvarnir, jafnrétti, hugleiðsla og jóga er meðal þess sem þeir fræðast um auk þess sem við förum og heimsækjum framhaldsskóla og kynnum okkur nám í þeim.“

Elísabet er viss um að auk lífsleikni muni kennslan í markmiðasetningu búa nemendur vel undir lífið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×