Innlent

Hluta Háaleitisbrautar lokað í um viku

Bjarki Ármannsson skrifar
Vegna framkvæmda við vatnslögn þarf að loka hluta Háaleitisbrautar tímabundið.
Vegna framkvæmda við vatnslögn þarf að loka hluta Háaleitisbrautar tímabundið. Mynd/Reykjavíkurborg
Vegna framkvæmda verður þeim kafla Háaleitisbrautarinnar sem liggur frá Kringlumýrarbraut að Skipholti lokað tímabundið í um viku. Unnið er að því að leggja nýja vatnslögn meðfram Kringlumýrarbraut og á morgun verður byrjað að grafa fyrir henni þvert á Háaleitisbraut.

Að því er fram kemur í tilkynningu frá Reykjavíkurborg, mun framkvæmdin einungis hafa áfrif á umferð bíla um Kringlumýrarbraut að því frátöldu að ekki verður hægt að beygja af götunni inn á þennan kafla Háaleitisbrautar.

Lokunin hefur áhrif á leið ellefu hjá Strætó og verða tilkynningar settar upp á þær biðstöðvar sem falla tímabundið úr þjónustu. Gangandi og hjólandi um gatnamótin þurfa einnig að leggja lykkju á leið sína. Þeir eru hvattir til að sýna aðgát við framkvæmdasvæðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×