Skoðun

Af hugsuðum

Húbert Nói Jóhannesson skrifar
Það er undarlegt að myndlistarrýnir Ríkissjónvarpsins, sem flytur okkur hugvekjur í enda dagskrárliðarins Djöflaeyjan, finni hjá sér þörf til að réttlæta val á erlendum listamanni sem fulltrúa Íslands á Feneyjartvíæring með því að afskrifa og atvinnurægja íslenska myndlistarmenn heilt yfir. (Að undanskildum þeim íslensku myndlistarmönum sem eru erlendir.)

Á myndlistarrýninum mátti skilja, í einni af hugvekjum hans, að íslenskir myndlistarmenn hafi ekki það andlega atgervi sem þarf til að fara sem fulltrúar sinnar þjóðar á Feneyjatvíæringinn.

Íslenskir myndlistarmenn standast kröfur um hagleik og meðferð hefðbundins efnis en eru ófærir um að vinna með flókið myndmál.

Verk þeirra skortir aukinheldur allt inntak, þeir „hafa ekkert að segja“, eru engir hugsuðir, andleg „násker“.

(Nú vekur þetta þá spurningu að ef rétt er að í verkum íslenskra myndlistarmenna sjáist hvorki heil hugsun eða brú þá lýsi það vel íslenskum veruleika og samfélagi eins og það er nú um stundir og slík verk því skínandi og sannur spegill þjóðar.)

Þetta árið var, svo öllu sé til haga haldið, valinn erlendur ríkisborgari sem framlag Íslands á Feneyjatvíæring.

Eðlilega fór af stað talsverð umræða um þetta meðal myndlistarmanna og ýmsar skoðanir fram settar en engan heyrði ég draga í efa hæfileika listamannsins sem varð fyrir valinu.

Það er mikið tækifæri fólgið í því að vera valinn sem fulltrúi þjóðar á Feneyjatvíæring og getur orðið stökkpallur fyrir listamann til að koma sér betur fyrir í sínu fagi, fá aukin tækifæri og ekki síst að vinna með fagfólki í allri umgjörð.

Á Rás 2 Ríkisútvarpsins 11. maí síðastliðinn var viðtal við myndlistarrýni Djöflaeyjunnar, þá nýkominn frá Feneyjum. Hann sagði hlustendum meðal annars frá fjórtán manna sendinefnd sem þar er að störfum frá sölugalleríi núverandi fulltrúa Íslands.

Sendinefndin sér líklega um að útskýra fyrir áhugasömum myndlistarrýnum hugsunina að baki verki listamannsins og skírskotanir þess til samtímans sem listrýnar komu ekki auga á sjálfir.

Fáir ef nokkrir íslenskir myndlistarmenn hafa aðgang að svo öflugri sveit í daglegu amstri og einmitt þess vegna er Feneyjatvíæringur íslenskum listamönnum mikilvægur því hann getur skapað þeim þannig starfsumhverfi.

Það starfsumhverfi listamanns er þá einnig orðið vettvangur og hróður þjóðar eins og margoft hefur sýnt sig á undanförnum árum með velgengni íslenskra listamanna á heimsvísu.

En dagskrárgerðarmaður Djöflaeyjunnar sér ástæðu, umbúðalaust, til að afskrifa íslenska myndlistarmenn frá alþjóðlegu starfi og skilaboðin eru þau að íslenskir myndlistarmenn eigi ekkert erindi á Tvíæringinn í Feneyjum.

Dagskrárgerðarmaðurinn ætti nú að ganga fram fyrir skjöldu og segja starfi sínu lausu þar sem myndlistin í landinu nær ekki máli og því ástæðulaust að gera henni nokkur skil í sjónvarpi.




Skoðun

Skoðun

Vertu drusla!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×