Innlent

Varað við símtölum frá ókunnugum númerum

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
vísir/getty
Fjölmargir Íslendingar hafa í dag fengið símtöl frá óþekktu erlendu símanúmeri. Líklega er um óprúttinn aðila að ræða og er fólk því hvatt til að svara ekki umræddu símanúmeri. Landsnúmerið er 232, frá Sierra Leone.

Ekki liggur fyrir hvað aðilanum gengur til með símtölunum, en flestir segja hann hringja og skella á. Líklega í þeirri von um að móttakandi hringi í hann til baka.

Lív Bergþórsdóttir, forstjóri Nova, varar fólk eindregið við og hvetur alla þá sem fá slík símtöl um að svara þeim ekki og hringja ekki til baka.

„Það hefur fjöldi símtala borist frá þessu númeri til okkar viðskiptavina í dag, þau skipta hundruðum. En það sem við gerum í svona tilfellum þegar umfangið er orðið svona mikið að þá lokum við á símtöl frá þessu númeri til okkar,“ segir hún. Hún bætir þó við að óprúttnir aðilar láti lokanirnar sjaldan á sig fá og haldi símhringingunum áfram en þá úr öðrum símanúmerum. 

Fólk þarf þó ekki að óttast að verða fyrir fjárhagslegu tjóni af því að hringja eða svara þessum símtölum umfram það sem kostar almennt að hringja til viðkomandi lands. Gunnhildur Arna Gunnarsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans, segir símtölin fyrst og fremst skapa ónæði, en allt að fimm þúsund viðskiptavinir Símans hafa fengið símtöl frá símanúmerinu í dag. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×