Innlent

Grunaður fjársvikari án tengsla við land og þjóð úrskurðaður í gæsluvarðhald

Birgir Olgeirsson skrifar
Maðurinn var handtekinn við komuna til landsins.
Maðurinn var handtekinn við komuna til landsins. Vísir/Valli
Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð yfir erlendum karlmanni sem grunaður er um fjársvik og tilraunir til slíks brots. Var maðurinn stöðvaður við komu hingað til land 28. júlí síðastliðinn. Í viðræðum tollvarða við manninn kom fram að hann hefði bókað og greitt fyrir farmiða sinn með greiðslukorti sínu á netinu. Við skoðun á bókum mannsins kom í ljós að farmiðinn hafði verið greiddur með greiðslukorti annars aðila, samtals að fjárhæð rúmra ellefu hundruð evra, eða að jafnvirði 163 þúsund íslenskra króna miðað við viðmiðunargengi þann dag.

Samkvæmt greinargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum sem var lögð fyrir í málinu fannst mikið magn af munum á manninum sem lögreglan telur að séu honum óviðkomandi, það er greiðslukort, sem tilheyra honum ekki, óútfyllt brottafaraspjöld frá mismunandi flugfélögum, merkimiðar ætlaðir áhöfnum mismunandi flugfélaga, óútfylltir úttektarmiðar fyrir hótel og fleira. Var maðurinn handtekinn í kjölfarið vegna gruns og fjársvik.

Er lögreglustjóri sagður ætla að gefa út ákæru á hendur mannsins hið allra fyrsta.

Við rannsókn málsins hafi komið í ljós að bókun hafi verið gerð á nafni kærða hinn 26. júlí á netinu og samkvæmt upplýsingum frá flugfélagi hafði maðurinn ekki greitt fyrir farmiðann á lögmætan hátt. Jafnframt bárust lögreglu upplýsingar frá flugfélagi um að maðurinn hefði gert ítrekaðar tilraunir til að bóka flug hingað til lands í september og október í fyrra með illa fengnum greiðslukortaupplýsingum. Þá er lögreglan jafnframt með til rannsóknar ætlaðar tilraunir mannsins til fjársvika í öðru máli frá því í september í fyrra.

Er talið að andlag brota mannsins nemi tæpum 590 þúsund krónum. Lögreglan segir manninn hafa neitað að hafa haft vitneskju um að greitt hefði verið fyrir farmiða hans á ólögmætan hátt og hafi að mati lögreglu gefið fjarstæðukenndar skýringar á atriðum er lúti að því broti sem hann er sé sakaður um.

Lögreglan leitaði eftir upplýsingum um brotaferil kærða víða um heim í gegnum alþjóðastofnanir og hafi þegar fengið upplýsingar um að maðurinn hafi komið við sögu í auðgunarbrotum sem þessum. Jafnframt liggi fyrir að hann var dæmdur hér á landi fyrir áþekkt brot á árinu 2007.

Lögreglustjórinn fór fram á gæsluvarðhald yfir manninum á grundvelli rannsóknarhagsmuna og nefndi einnig að maðurinn, sem er erlendur ríkisborgari, virðist ekki hafa nokkur tengsl við land og þjóð, en hann eigi hvorki fjölskyldu né vini hér á landi né stundi hér atvinnu. Af þessum sökum taldi lögregla hættu á að maðurinn muni reyna að komast úr landi eða leynast ellegar koma sér undan með öðrum hætti undan málsókn eða fullnustu refsingar gangi hann laus meðan mál hans er til meðferðar fyrir héraðsdómi.

Hæstiréttur staðfesti úrskurð Héraðsdóms Reykjaness og verður maðurinn í gæsluvarðhaldi til 26. ágúst næstkomandi, en hann hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 28. júlí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×