Innlent

Enginn kannast við fund í ráðhúsinu

Sveinn Arnarsson skrifar
Haraldur Líndal Haraldsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, vill ekki tjá sig um málið.
Haraldur Líndal Haraldsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, vill ekki tjá sig um málið.
Ástæða þess að Hafnarfjarðarbær leitaði til Vodafone um símagögn bæjarins er ágreiningur um hvort fundur hafi verið haldinn laugardaginn 15. nóvember í fyrra í ráðhúsi bæjarins. Á þann fund var starfsmaður hafnarinnar boðaður og mætti hann í ráðhúsið þennan dag. Tveir einstaklingar sátu fundinn með honum en ekki er enn vitað hvaða einstaklingar voru þar á ferðinni.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var fundurinn á efri hæð ráðhússins á gangi þar sem ágætis setustofa er fyrir hendi. Sá staður er mjög nálægt skrifstofu bæjarstjóra Haraldar Líndal Haraldssonar. Þennan laugardag var hafnarstjóri, Már Sveinbjörnsson, í útlöndum og vissi ekki af fundinum í ráðhúsinu.

Á fundinum með starfsmanni hafnarinnar var aðallega farið yfir vaktir sem starfsmenn Hafnarfjarðarhafnar ganga, sem og viðhald á bryggjunni.

Einnig var farið á fundinum yfir rekstur hafnarinnar og starfsmaðurinn spurður nokkuð ítarlega um stjórnun Más hafnarstjóra.

Þessir þættir sem spurt er um eru allir rekstrarlegs eðlis. Hafnarfjarðarhöfn er svokallað B-fyrirtæki innan Hafnarfjarðar, rekið eingöngu á sjálfsaflafé og skilar tekjum í sveitarsjóð því reksturinn stendur undir sér og meira til.

Sjá einnig: Könnuðu hverja kjörnir fulltrúar töluðu við í síma

Rósa Guðbjartsdóttir Bíður niðurstöðu Persónuverndar. Hún neitaði að svara hvort hún hefði vitað um innanhússrannsóknina þegar hún stóð yfir.
Enginn vill kannast við fundinn

Menn innan bæjarkerfisins vilja ekkert kannast við það að þessi fundur hafi nokkurn tímann átt sér stað og enginn innan stjórnsýslunnar virðist kannast við að hafa kallað hafnarstarfsmanninn á fund til sín, þennan umrædda laugardag 15. nóvember 2014.

Þegar hafnarstarfsmaðurinn fór síðan að tala um þennan fund og ræða við samstarfsmenn sína um fundinn í ráðhúsinu fóru hjólin að snúast á bæjarskrifstofum Hafnarfjarðarbæjar.

„Aðgangskerfið lá niðri“

Til þess að komast inn í ráðhús Hafnarfjarðarkaupstaðar á laugardegi þarf að hafa sérstakt aðgangskort. Ef aðgangskort er ekki fyrir hendi er ekki hægt að komast inn í ráðhúsið. Húsið er rammlæst og háþróað aðgangsstýrikerfi að húsinu veitir upplýsingar um hverjir eru í húsinu á hverjum tíma. Hins vegar hefur komið fram í viðtölum við starfsmenn Hafnarfjarðarkaupstaðar að svo virðist sem aðgangsstýrikerfið hafi „legið niðri“ á nákvæmlega þeim tíma sem fundurinn fór fram.

Ekki er hægt að finna út í gögnum bæjarins hverjir hafi verið í húsinu þennan dag og ekki hægt að sjá á myndavélum hverjir gengu þar um. Hins vegar er vitað að bæjarstjóri sjálfur var í húsinu þegar fundurinn var haldinn.

Áminntur fyrir ósæmilega hegðun í starfi

Á fundi hafnarstjórnar var ákveðið að áminna starfsmanninn vegna ósæmilegrar hegðunar í starfi. Ekki var nánar tilgreint hvað fólst í orðunum „ósæmileg hegðun í starfi“ en að endingu var samþykkt að maðurinn, sem er við það að fara á eftirlaun, yrði áminntur. Sú áminning er talin vera fyrir þær sakir að hann hafi ekki sagt satt og rétt frá um fundinn 15. nóvember.

Hafnarstjórn fól hafnarstjóranum að áminna starfsmann sinn. Már taldi hann hins vegar ekki hafa unnið til áminningar með nokkrum hætti og neitaði að veita hana.

Már Sveinbjörnsson hefur starfað sem hafnarstjóri í á þriðja áratug. Hann harðneitaði að áminna starfsmann sinn því hann hafði ekkert til saka unniðFréttablaðið/Gva
Áminntur af bæjarfulltrúa

Að endingu var svo ákveðið að formaður hafnarstjórnar,  bæjarfulltrúinn Unnur Lára Bryde, áminnti starfsmann persónulega fyrir ósæmilega hegðun í starfi. Afhenti Unnur, pólitískt skipuð, starfsmanni hafnarinnar þá áminningu þrátt fyrir að hafa lítið sem ekkert umboð til þess að geta áminnt starfsmenn bæjarfélagsins.

Enn er ekki vitað af hverju maðurinn var áminntur og enginn vill tjá sig um áminninguna.

Bréf frá Félagi skipstjórnarmanna

Stéttarfélag hafnarstarfsmannsins, Félag skipstjórnarmanna, sendi Hafnarfjarðarbæ harðort bréf vegna áminningarinnar og bað bæjaryfirvöld um að afturkalla hana hið snarasta og biðja starfsmanninn afsökunar.

Í bréfinu eru vinnubrögðin gagnrýnd og fullyrt að starfsmaðurinn hafi ekki unnið það sér til saka að verða áminntur fyrir störf sín.

Á síðasta fundi hafnarstjórnar 17. febrúar var málið gagnvart hafnarstarfsmanninum látið niður falla og honum sent bréf þar sem áminningin er afturkölluð. Ekki er beðist afsökunar eins og Félag skipstjórnarmanna óskaði eftir.

Enginn vill tjá sig

Hvorki bæjarstjóri, Haraldur Líndal Haraldsson, né oddvitar meirihlutaflokkanna vilja tjá sig um málið og segja það starfsmannamál. Því sé ekki hægt að ræða það mál í fjölmiðlum.

Hins vegar hefur bæjarstjóri sagt í ræðustól í bæjarstjórn Hafnarfjarðar að málið hafi verið það alvarlegt að það varðaði öryggi bæjarins og því þurfti að grípa til þeirra aðgerða að kalla eftir gögnum hjá Vodafone.


Tengdar fréttir

Bæjarstjóri játar að hafa skoðað símtalaskrár

Bæjarfulltrúar minnihlutans í Hafnarfirði segja skýringar bæjaryfirvalda ekki duga til þess að þeir kalli aftur kvörtun til Persónuverndar vegna skoðunar á símanotkun þeirra. Engin svör bárust frá bænum við spurningum Fréttablaðsins.

Hafði enga fyrirfram vitneskju í símamáli

„Við höfðum enga fyrirfram vitneskju um þetta, ekki nokkra einustu,“ segir Guðlaug Kristjánsdóttir, oddviti Bjartrar framtíðar og forseti bæjarstjórnar í Hafnarfirði, um símtalamálið í Hafnarfirði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×