Innlent

Vinnuveitanda geta verið settar skorður

Sveinn Arnarson skrifar
Meirihluti bæjarstjórnar vill ekki tjá sig um málið fyrr en Persónuvernd hefur lokið yfirferð sinni. Það mun taka stofnunina nokkra mánuði að klára málið.
Meirihluti bæjarstjórnar vill ekki tjá sig um málið fyrr en Persónuvernd hefur lokið yfirferð sinni. Það mun taka stofnunina nokkra mánuði að klára málið.
Vinnuveitanda kann að vera settar skorður samkvæmt almennum persónuverndarlögum varðandi nýtingu og vinnslu upplýsinga. Þetta kemur fram í svari Björns Geirssonar, forstöðumanns Póst- og fjarskiptastofnunar, við fyrirspurn Fréttablaðsins um innanhússrannsókn Hafnarfjarðarbæjar á símtölum starfsmanna sinna og kjörinna fulltrúa.

„Samkvæmt fjarskiptalögum er fjarskiptafyrirtækjum skylt að afhenda áskrifanda fjarskiptaþjónustu sundurliðaðar upplýsingar um þá fjarskiptanotkun sem áskrifandinn hefur gert samning um og greiðir fyrir. Áskrifandi fjarskiptaþjónustu getur verið fyrirtæki, til dæmis sveitarfélag. Þannig getur vinnuveitandi óskað eftir sundurliðun á fjarskiptanotkun starfsmanna sinna, ef hann er áskrifandi fyrir þjónustunni,“ segir Björn.

Björn tekur fram að símamálið í Hafnarfirði hafi ekki borist stofnuninni með neinum hætti og sé ekki til skoðunar þar. Einnig geti hann ekki tjáð sig um einstök mál.

Rósa Guðbjartsdóttir, formaður bæjarráðs Hafnarfjarðarkaupstaðar, vill ekki tjá sig um skoðun Hafnarfjarðarbæjar á símtölum bæjarstarfsmanna og kjörinna fulltrúa fyrr en Persónuvernd hefur lokið afgreiðslu sinni um málið.

Þrír bæjarfulltrúar hafa kvartað til Persónuverndar þar sem símanúmer þeirra hafi verið könnuð vegna innanhússrannsóknar bæjarfélagsins á fundi sem talið er að hafi átt sér stað þann 15. nóvember síðastliðinn.

Þar með hafa bæjarstjóri og báðir oddvitar meirihlutaflokkanna í Hafnarfirði gefið það út að þeir muni ekki tjá sig um málið.

Kvörtun bæjarfulltrúa minnihlutans barst Persónuvernd í vikunni og því er líklegt að niðurstaða fáist ekki í málið fyrr en að nokkrum mánuðum liðnum.

Halldór Halldórsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, spurðist fyrir um hvort viðlíka mál gæti komið upp hjá borginni. „Við notum síma okkar mikið í vinnunni. Það er skrítið og óþægilegt að vita að einhverjir geti fengið upplýsingar um símnotkun okkar kjörinna fulltrúa,“ segir Halldór.

Póst- og fjarskiptastofnun mun ekki taka málið upp að eigin frumkvæði. „Stofnunin tekur ekki upp mál sem eru til meðferðar hjá öðrum stjórnvöldum. Einnig tekur hún ekki upp mál að eigin frumkvæði,“ segir Björn forstöðumaður.


Tengdar fréttir

Bæjarstjóri játar að hafa skoðað símtalaskrár

Bæjarfulltrúar minnihlutans í Hafnarfirði segja skýringar bæjaryfirvalda ekki duga til þess að þeir kalli aftur kvörtun til Persónuverndar vegna skoðunar á símanotkun þeirra. Engin svör bárust frá bænum við spurningum Fréttablaðsins.

Enginn kannast við fund í ráðhúsinu

Upphaf símtalamálsins í Hafnarfirði er fundur í ráðhúsi bæjarins 15. nóvember. Hafnarstarfsmaður segist hafa farið á fund og rætt störf Más Sveinbjörnssonar hafnarstjóra.

Hafði enga fyrirfram vitneskju í símamáli

„Við höfðum enga fyrirfram vitneskju um þetta, ekki nokkra einustu,“ segir Guðlaug Kristjánsdóttir, oddviti Bjartrar framtíðar og forseti bæjarstjórnar í Hafnarfirði, um símtalamálið í Hafnarfirði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×