Innlent

Konur bíða lengur á bráðamóttöku

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Konur með hjarta- og æðasjúkdóma bíða lengur á bráðamóttöku en karlar eftir aðstoð og fá síður lyfjameðferð. Þetta segir hjartalæknir sem telur vitundarvakningar þörf hjá heilbrigðisstarfsfólki.

Algengasta dánarorsök kvenna á Íslandi eru hjarta- og æðasjúkdómar en talið er að um 350 konur látist af þeirra völdum á ári hverju. Yngstu konurnar eru 35 ára. „ Því miður deyja árlega alltaf nokkrar ungar konur sem hafa hvorki sjálfar gert sér grein fyrir að einkennin sem þær væru með væru tengd hjarta- og æðasjúkdómi og það hefur jafnvel komið fyrir að heilbrigðisstarfsfólk hefur heldur ekki áttað sig á því, “ segir Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir hjartalæknir.

Hún segir að einkenni hjarta- og æðasjúkdóma séu oft óljósari hjá konum en körlum. Það hafi í för með sér að greiningarferli og áhættumat tefst oft. „ Konur fá síður lyfjameðferð. Þær bíða lengur á bráðamóttöku eftir aðstoð þó þær leiti á bráðamóttöku með alveg klassísk einkenni. Þannig að við virðumst ekki vera alveg á sama verði gangvart þessum sjúkdómi. Þannig að vitundarvakningar er þörf bæði hjá konum og hjá heilbrigðisstarfsfólki, “ segir Þórdís.

Þórdís er formaður stjórnar GoRed sem stendur nú í sjöunda skiptið fyrir átaki til að fræða konur um áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma. GoRed býður á morgun upp á heilsufarsmælingar fyrir konur í húsnæði Hjartaheilla í Síðumúla 6 á milli 11-16 og hvetur Þórdís konur til að koma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×