Innlent

Tilnefningar til Samfélagsverðlauna Fréttablaðsins

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Handhafar aðalverðlauna á síðasta ári voru Klúbburinn Geysir.
Handhafar aðalverðlauna á síðasta ári voru Klúbburinn Geysir. visir/stefán
Samfélagsverðlaun Fréttablaðsins verða afhent að viku liðinni, þann 19. mars.

Dómnefnd hefur valið úr þeim hundruðum tilnefninga sem bárust frá lesendum blaðsins og tilnefnt þrjú félagasamtök og þrjá einstaklinga í hverjum flokki sem verðlaun eru veitt í.

Í flokknum Hvunndagshetjan eru tilnefnd Ísleifur Patrik Friðriksson, starfsfólk Grensáss fyrir framlag sitt til að bæta heilsu fólks og Gunnar Kvaran tónlistarmaður fyrir að opna umræðu um þunglyndi.

Í flokknum Frá kynslóð til kynslóðar eru tilnefnd þau Jón Freyr Þórarinsson, kennari og skólastjóri, Þórunn Björnsdóttir, söngstjóri Kórs Kársnesskóla, og Jónína Ómarsdóttir, kennari í Rimaskóla.

Í flokknum atlaga gegn fordómum eru tilnefnd Kristín Vilhjálmsdóttir, verkefnastjóri fjölmenningar á Borgarbókasafni, Halldór og Kári Auðar og Svanssynir sem tjáðu sig opinskátt um sálræn veikindi sín í Fréttablaðinu, og Miriam Petra Ómarsdóttir Awad, sem er hálfur Íslendingur og hálfur Egypti og er stolt af hvoru tveggja.

UN Women, Rótin og Stígamót eru svo tilnefnd til aðalverðlauna Samfélagsverðlaunanna en vinningshafinn fær 1,2 milljónir króna að launum.

Þetta verður í tíunda sinn sem Fréttablaðið veitir Samfélagsverðlaunin. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, mun afhenda verðlaunin. Dómnefnd er skipuð þeim Kristínu Þorsteinsdóttur, ritstjóra og útgefanda Fréttablaðsins, Guðmundi Andra Thorssyni rithöfundi og Guðrúnu Ögmundsdóttur, starfsmanni innanríkisráðuneytisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×