Innlent

Vatn flæddi inn í fimleikasal

Sveinn Arnarsson skrifar
Eins og sjá má flæddi vatn inn um allt hús. Dýr búnaður er í húsinu.
Eins og sjá má flæddi vatn inn um allt hús. Dýr búnaður er í húsinu.
Mikið vatn flæddi inn í fimleikasal Fimleikafélags Akureyrar í morgun. Kalla þurfti til slökkvilið til að dæla út vatni sem hafði komið sér leið inn í húsið. Stíflað niðurfall við neyðarútgang orsakaði að mikið vatn safnaðist saman við hurðina sem þrýsti sér leið inn í húsið. Í fyrstu virðist vera sem vatnið hafi ekki valdið stórvægilegum skemmdum.

Slökkviliðið var kallað út um níuleytið í morgun sem dældi út vatni. Fimleikahús Fimleikafélags Akureyrar er tiltölulega nýtt hús og stendur við Giljaskóla. Dýr búnaður er í húsinu sem er sérhæfður til fimleikaiðkunar. Mildi þykir að vatn náði ekki að koma sér ofan í gryfjur og valda skemmdum á búnaði.

Miklar leysingar eru á Akureyri. Síðasta hálfa sólarhringinn hefur hitastig verið um tíu gráður með miklu roki og rigningu. Snjó og ís hefur því tekið upp mjög hratt. Ef niðurföll og ræsi ná ekki að taka við vatni safnast það saman og finnur sér aðrar leiðir, svo sem inn í hús.

Blásarar eru nú í fimleikasalnum sem munu vinna fram eftir degi. Veðrið mun ganga hratt niður norðanlands eftir hádegi.

Slökkvilið Akureyrar þurfti að dæla upp vatni sem safnaðist saman við neyðarútgang.
Allt nothæft var nýtt til að stöðva vatnið.Vísir / Sveinn



Fleiri fréttir

Sjá meira


×