Innlent

Metur möguleika metárganga mikla

Ingvar Haraldsson skrifar
Atvinnumöguleikar háskólanema eru sagðir vera á uppleið.
Atvinnumöguleikar háskólanema eru sagðir vera á uppleið. fréttablaðið/ernir
Katrín Oddsdóttir
Tæplega 2.800 manns munu útskrifast úr Háskólanum í Reykjavík, Háskóla Íslands og Listaháskóla Íslands í dag. Í Laugardalshöllinni mun Háskóli Íslands brautskrá 2.098 nemendur og í Hörpu mun Háskólinn í Reykjavík útskrifa 553 nemendur. Í báðum tilfellum er um metfjölda að ræða.

Katrín Óladóttir, framkvæmdastjóri ráðninga- og ráðgjafarfyrirtækisins Hagvangs, segir að atvinnuhorfur ungs fólks séu að batna. „Okkur finnst þetta hafa verið að breytast á þessu ári í jákvæða átt. Það er að aukast eftirspurn eftir fólki almennt,“ segir Katrín.

Úr viðskiptadeildum HÍ og HR munu útskrifast 362 manns í dag. Atvinnuleysi meðal viðskiptafræðimenntaðra hefur verið á hraðri niðurleið. Í maí 2011 voru 315 manns með viðskiptafræðimenntun atvinnulausir en 184 í maí síðastliðnum.

Atvinnulausum með lögfræðimenntun hefur aftur á móti fjölgað að undanförnu. Í maí árið 2011 voru 58 með lögfræðimenntun atvinnulausir en 95 í maí síðastliðnum.

Katrín segist engu að síður finna fyrir því að atvinnuhorfur þessara stétta séu að batna. „Það var meira framboð í þessum tveimur deildum heldur en vinnumarkaðurinn var í þörf fyrir,“ segir Katrín.

Á síðustu árum hafi vinnumarkaðurinn helst kallað eftir fólki með menntun á sviði upplýsinga- og tölvutækni en það sé að breytast. „Það er byrjað að spyrja aftur um viðskiptafræðinga sem voru svo margir að það var í raun ekki þörf á að bæta fleiri viðskiptafræðingum við í fyrirtækin,“ segir hún.

Katrín telur að möguleikar fólks með afar fjölbreytta menntun séu að batna. „Við erum að sjá þessa fjölbreytni í eftirspurninni. Við höfum t.d. ekki heyrt í nokkur ár að einhver fyrirtæki væru að huga að vöruþróun í miklum mæli. Nú finnst okkur fyrirtækin vera farin að leita aftur að fólki sem er skapandi, hefur unnið við slíka hluti og sér sjálft sig koma inn með nýjar hugmyndir fyrir fyrirtækin og þá sér maður að það er einhver bati í gangi,“ segir Katrín að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×