Innlent

Sagði lækninum að taka bara fæturna af

Garcia-Tolson mátaði gervifætur hjá Össuri til að sjá með hverjum þeirra hann gæti hlaupið hraðast.
Garcia-Tolson mátaði gervifætur hjá Össuri til að sjá með hverjum þeirra hann gæti hlaupið hraðast. fréttablaðið/ernir
Ólympíufarinn Rudy Garcia-Tolson er staddur hér á landi til að prófa gervilimi frá Össuri. Báða fæturna vantar á Rudy en þeir voru teknir af fyrir ofan hné þegar hann var barn.

„Ég fæddist með fætur en ég gat ekkert notað þá, þegar ég var fimm ára sagði ég lækninum að taka þá bara af, mig langaði að geta gengið og hlaupið eins og systkini mín,“ segir Rudy. Það var sannarlega rétt ákvörðun því Rudy stefnir nú að því að komast á Ólympíumót fatlaðra 2016 og keppa í bæði sundi og hlaupum. „Við erum að máta fætur og reyna að finna út hvernig ég get hlaupið sem hraðast.“

Rudy hefur þrisvar áður tekið þátt á Ólympíumótinu. Hann vann gull í Peking árið 2008 og setti heimsmet í 200 metra sundi í London árið 2012. Þá hefur Rudy einnig keppt í þríþraut með leikaranum Robin Williams. „Robin hjólaði og ég synti,“ segir Rudy, en hann er talsmaður samtaka fatlaðra íþróttamanna (CAF) sem voru studd af leikaranum.

Rudy hefur ferðast um öll Bandaríkin og haldið fyrirlestra og sagt frá reynslu sinni sem fatlaður íþróttamaður. Hann hélt fyrirlestur hjá Íþróttafélagi fatlaðra á þriðjudaginn þar sem hann talaði við afrekshóp barna í sundi og frjálsum íþróttum. „Ég upplifi mig ekki fatlaðan þegar ég er að synda og hlaupa og vil koma því til skila til krakkanna.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×