Innlent

Neydd með börnin úr öryggi á Íslandi í óvissu vestan hafs

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Ásta heldur af landi brott með börnum sínum tveimur og föður sínum. Hún veit ekki hvað tekur við eða hvort barnsfaðir hennar fær forræði yfir börnum þeirra.
Ásta heldur af landi brott með börnum sínum tveimur og föður sínum. Hún veit ekki hvað tekur við eða hvort barnsfaðir hennar fær forræði yfir börnum þeirra. Fréttablaðið/Stefán
„Ég er rosalega stressuð að vera að fara út enda veit ég í raun og veru ekkert hvað tekur við. Ég hef miklar áhyggjur af öryggi barnanna,“ segir Ásta Gunnlaugsdóttir sem í dag þarf að fara af landi brott með börn sín tvö til föðurs þeirra í Bandaríkjunum.

Ástu var gert að afhenda honum börnin eftir að Hæstiréttur sneri við dómi Héraðsdóms Reykjaness sem hafði úrskurðað að það myndi stefna andlegri heilsu barnanna í hættu að taka þau úr umsjá móður þeirra.

Ásta kynntist eiginmanni sínum á Íslandi árið 2006. Þá var hún tvítug en hann er tuttugu árum eldri. Stuttu áður hafði hann fengið dóm fyrir stórfellda vörslu barnakláms sem hún vissi ekki af. Þau fluttu síðan til Bandaríkjanna árið 2007.

Í apríl síðastliðnum kom hún hingað með börnin til þess að reyna að fá lán fyrir rekstri ísverksmiðju sem þau eiga saman. Við heimkomuna segist hún hafa áttað sig á því hvað þau byggju við slæmar aðstæður úti og ákveðið að snúa ekki til baka. Þegar eiginmaður hennar komst að því þá sendi hann beiðni til íslenskra stjórnvalda um afhendingu barnanna á grundvelli Haag- samningsins.

„Ég áttaði mig ekki á því fyrr en ég kom heim hvað við bjuggum við ömurlegar aðstæður. Börnin fóru ekki á leikskóla og áttu ekki eðlilegt líf. Ég var alltaf að vinna og þau voru með mér. Hann hugsaði ekkert um þau,“ segir hún.

„Þeim hefur farið svo mikið fram síðan við komum til Íslands enda í fyrsta skipti sem þau búa við eðlilegar aðstæður. Það erfiðasta við þetta allt saman er að taka þau úr því öryggi sem þau búa við hér og fara með þau í óvissu þar sem ég veit ekkert hvað tekur við. Þetta er í fyrsta sinn sem þau fá að vera börn og þá þarf að eyðileggja það allt fyrir þeim.“

Eftir að þau komu til Íslands fékk yngra barnið einhverfugreiningu og átti að byrja í meðferðarúrræðum núna í janúar sem ekki verður af. Eldra barnið er eftir á í þroska og segir Ásta að rekja megi erfiðleika þeirra til þeirra aðstæðna sem þau bjuggu við úti.

Samkvæmt dómi fær faðir þeirra umgengnisrétt við börnin. „Þangað til málið verður tekið fyrir þá fær hann að hitta þau sex tíma á viku án eftirlits og aðra hverja helgi.“

Ásta kvíðir fyrir því að fara út og óttast að faðirinn fái forræði yfir börnunum. „Mér datt ekki í hug að Hæstiréttur myndi snúa þessu við. Ég var með það mikið af sönnunargögnum sem sýna að hann hefur aldrei hugsað um börnin sín auk þess sem hann er með þennan dóm á bakinu. Þannig að auðvitað óttast ég að þetta geti farið á versta veg en vona auðvitað það besta.“

Faðir Ástu er búsettur í Noregi en kemur heim í dag til þess að fara með Ástu og börnunum til Bandaríkjanna og hjálpa henni í baráttunni.

„Ég veit ekki hvað þetta mun taka langan tíma. Lögfræðingurinn minn úti er búinn að segja að þetta gæti tekið hálft ár, kannski minna og kannski meira. Fyrst fara sáttasamningar í gang, ef þeir ganga ekki upp eins og ég ímynda mér að þeir geri ekki þá fer þetta fyrir dóm.“

Ásta er ekki með atvinnuleyfi úti og treystir því á velvild vina og ættingja sem hafa safnað fyrir henni með ýmsum hætti. Hún er komin með stúdíóíbúð á leigu þar sem hún kemur til með að dvelja þar til niðurstaða verður komin í málið.

„Bara grunnlaun lögfræðingsins eru 900 þúsund. Þetta verður dýrt en ég ætla að berjast fyrir börnunum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×