Innlent

Segir íslensku leiðina ekki til samanburðar

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Alexis Tsipras
Alexis Tsipras
„Þeir hafa verið mjög áhugasamir um efnahagsbatann á Íslandi og það hafa einhverjir nærri honum [Tsipras] áður haft samband til að grennslast fyrir um þessi mál,“ segir Steingrímur J. Sigfússon, fyrrverandi fjármálaráðherra.

Hann segir ekkert formlegt samstarf vera á milli Vinstri grænna og Syriza en fólk á vinstri hliðinni í Evrópu hittist reglulega. 

Steingrímur J. sigfússon
„Ég var þarna á Grikklandi fyrir ári á tveggja daga ráðstefnu til að tala um þessi efnahagsmál. Þar tók ég meðal annars þátt í pallborði með Tsipras og ég hef hitt hann nokkrum sinnum. Við erum hvor öðrum kunnugir.“

The Telegraph greindi frá því á sunnudaginn að áhugi væri meðal þingmanna Syriza á að fara svokallaða íslenska leið við að glíma við skuldavanda Grikklands.

Fundir leiðtoga Grikklands og Evrópusambandsins báru engan árangur um helgina en í lok mánaðar gjaldfellur 1,5 milljarða evra lán frá AGS til Grikklands.

Alexis Tsipras neitar að verða við lánaskilyrðum Evrópusambandsins sem fela meðal annars í sér að skera niður í lífeyriskerfinu.

Steingrímur segir að fulltrúar innan Syriza hafi verið áhugasamir um íslensku leiðina fyrir stjórnarskipti í Grikklandi en hann varar við því að fólk standi í of miklum samanburði.

„Ég set á það mikla fyrirvara. Eins og ég hef sagt að þá er þetta algerlega ósambærilegt. Það getur verið áhugavert og gagnlegt að bera saman bækur en að yfirfæra lausnina er allt annar handleggur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×