Innlent

Varasamar risahvannir

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Dæmi eru um að fólk hafi brennt sig illa eftir að hafa fengið á sig safa úr risahvönnum. Plönturnar eru varasamar og bannað er að rækta þær hérlendis.

Fréttablaðið fjallaði í dag um dreifingu Risahvannarinnar á Akureyri en markvisst hefur verið reynt að eyða plöntunni hérlendis. Um nokkrar tegundir hvanna er að ræða en þegar þær hafa blómstrað þá geta þær orðið mjög háar og draga nafn sitt af því.

Risahvannirnar eru eitraðar á þann hátt að ef safi berst úr blöðum eða stönglum á húð þá veldur það ljósertisexemi. Í safa hvannarinnar eru efni sem fara fljótt inn í húðina og veldur því að hún verður ofurviðkvæm fyrir útfjólubláu ljósi. Við minnstu birtu getur viðkomandi fengið annars stigs bruna með vessandi blöðrum og sárum.

„Hún hefur eiginlega tvo slæma kosti,“ segir Sigurður H. Magnússon, plöntuvistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. „Í fyrsta lagi getur myndast bruni ef safinn lendir á húðinni og í öðru lagi er hún ágeng. Það er að segja, hún getur farið yfir gróður þar sem menn telja ekki endilega heppilegt að hafa hana. Það getur verið mjög erfitt að losna við hana eftir að hún er einu sinni komin.“

Bannað er að rækta plöntuna hérlendis. Hún er fljót að dreifa sér og líkleg til að breiðast út í náttúrunni, til dæmis á lúpínusvæðum þar sem jarðvegur er næringarríkur.


Tengdar fréttir

Vilja útrýma risahvönn á Akureyri

Risahvönn er farin að dreifa sér víða á Akureyri. Komist safinn úr hvönninni í snertingu við húð geta myndast slæm brunasár, segir grasafræðingur. Í Stykkishólmi hófust aðgerðir gegn risahvönn fyrir sex árum. Eru fjarlægðar um leið og þær sjást.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×