Innlent

Sighvatur segir Framsóknarflokkinn ekki hneigjast til öfgastefnu

Randver Kári Randversson skrifar
Sighvatur Björgvinsson, fyrrverandi ráðherra, skrifar grein í Fréttablaðið í dag.
Sighvatur Björgvinsson, fyrrverandi ráðherra, skrifar grein í Fréttablaðið í dag. Vísir/GVA
„Ég hef því sannast sagna ekki miklar áhyggjur af því að Framsóknarflokkurinn sé að verða fasískur þótt byrjanda í framboði blautum á bak við bæði eyrun hafi illa orðið fótaskortur á eigin tungu,“ skrifar Sighvatur Björgvinsson í aðsendri grein í Fréttablaðið í dag.

Sighvatur telur að ummæli oddvita Framsóknarflokksins í Reykjavík um meinta andúð á múslimum hafi ekki verið úthugsað kosningabragð til að afla flokknum atkvæða. Málið sé einfaldlega tilkomið vegna reynsluleysis oddvitans, sem hafi litla þekkingu á stefnu flokks síns og hafi ekki gert sér grein fyrir því að sem einstaklingur í oddvitasæti hafi hafi hún talað fyrir hönd alls framboðsins en ekki einungis fyrir sjálfa sig.

Sighvatur telur ekki að Framsóknarflokkurinn sá að hneigjast til öfgastefnu í málefnum minnihlutahópa. Hann hefur hins vegar áhyggjur af viðbrögðum tiltekins hóps kjósenda við ummælunum, sem virðist móttækilegur fyrir málflutningi Sveinbjargar Birnu.

„Ég hef miklu meiri áhyggjur af því að sú bullinkolla vakti upp mikinn og óvæntan stuðning í hópi íslenskra kjósenda sem mættu fúsir til leiks þegar foringi gaf sig fram sem að minnsta kosti sýndist vera að flytja boðskap fasisma um ekki bara óvild heldur blint hatur á tilteknum hópi mikils minnihluta Íslendinga,“ skrifar Sighvatur.



Jafnframt tekur hann undir með ritstjóra Morgunblaðsins um að fram þurfi að fara umræða um hatursfulla afstöðu margra Íslendinga til útlendinga og minnihlutahópa ef ekki eigi illa að fara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×