Innlent

Áður náttúruperlur en nú undir vatni

Stefán Árni Pálsson skrifar
Tónleikarnir Stopp! Gætum garðsins fóru fram í Hörpu á þriðjudagskvöldið. Þar komu fram hinir ýmsu tónlistarmenn og konur á borð við Björk, Lykke Li og Patti Smith.

Eitt af því sem vakti mikla athygli á tónleikunum var þegar myndbandi var varpað á risatjald í miðjum tónleikum.

Í myndbandinu má sjá þegar Guðmundur Páll Ólafsson, náttúrufræðingur og rithöfundur, rífur stóran hluta af blaðsíðum úr bók sinni Hálendið sem kom út árið 2001.

Tónleikarnir voru haldnir í þágu íslenskrar náttúru en það voru Náttúruverndarsamtök Íslands og Landvernd sem stóðu fyrir þeim.

Á umræddum blaðsíðum eru myndir af íslenskum náttúruperlum sem margar hverjar eru í dag undir vatni vegna framkvæmda á svæðunum.

„Þessi foss hverfur ef verður af Kárahnjúkavirkjun,“ sagði Guðmundur á sínum tíma og rífur því næst blaðsíðu úr bók sinni Hálendið.

Guðmundur Páll Ólafsson lést árið 2012, þá 71 árs að aldri .

Guðmundur starfaði í seinni tíð sem rithöfundur, náttúrufræðingur og ljósmyndari. Hann hlaut íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir bókina Hálendið í náttúru Íslands, og var einnig tilnefndur til verðlaunanna fyrir Perlur í náttúru Íslands og Ströndin í náttúru Íslands.

Myndbandið má sjá hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×