Skoðun

Þvergirðingsháttur og kassahugsun UMFÍ og Frjálsíþróttasambands Íslands

Orri Þórðarson skrifar
Systurdóttir mín er fædd í febrúar 2004. Hún er bráðger og er ári á undan í skóla. Hún æfir fótbolta og frjálsar með Breiðabliki og fylgir sínum bekk í íþróttum þ.a. hún er einnig einu ári á undan þar. Ekki af því að hún sé eitthvað yfirburða góð heldur út af félagslega þættinum, þar eru hennar vinkonur.

Nú hefur það gerst í tvígang að hún hefur ekki fengið að keppa á mótum með vinkonum sínum vegna þess að hún er ári yngri. Mikil tilhlökkun hefur því breyst í vonbrigði. Bæði á Ungmennalandsmóti UMFÍ sem fór fram fyrstu helgina í ágúst og á Meistaramóti FRÍ 11-14 ára sem fram fer á Akureyri næstu helgi er gerð krafa um að börn séu 11 ára á almanaksárinu og engar undanþágur veittar.

Ég skil að það verða að vera skýrar reglur en menn verða samt að hugsa. Innan við 1% barna er ári á undan í grunnskóla. Það gefur augaleið að vinahópur þeirra er yfirleitt krakkar sem eru með þeim í árgangi. Er það ekki næg ástæða til að þau fái undanþágu? Þessi mót færu varla á hliðina út af örfáum krökkum sem hugsanlega bættust við!

Þarna er einnig ósamræmi milli sérgreinasambanda því í hópíþróttum s.s. fótbolta, handbolta og körfubolta þykir það ekkert tiltökumál að krakkar „spili upp fyrir sig“ eins og það kallast.

Stífni UMFÍ og FRÍ er umhugsunarverð, sérstaklega af því að velferð barna og unglinga á alltaf að vera í hávegum höfð innan íþróttahreyfingarinnar. Börn eru ekki rúðustrikað blað eða reglugerðir.

Ég vona að UMFÍ og FRÍ endurskoði þessa hluti, því þetta er ekki í takti við það góða starf sem fer fram innan þessara hreyfinga.




Skoðun

Sjá meira


×