Innlent

Bjargfuglar eiga mjög undir högg að sækja

Svavar Hávarðsson skrifar
Stofnar svartfugla gefa eftir víða í kringum landið.
Stofnar svartfugla gefa eftir víða í kringum landið. mynd/fuglavernd
Rannsóknir Náttúrustofu Norðausturlands á ástandi sjófuglastofna sýna óheillaþróun, bæði til skamms og lengri tíma litið. Fækkun einstakra tegunda er slík að búast má við að þær hverfi með öllu í stórum sjófuglabyggðum.

Á heimasíðu sinni greina starfsmenn Náttúrustofunnar frá reglubundinni vöktun sjófuglastofna á Norðausturlandi undanfarin ár. Vöktunin felur m.a. í sér árlegar talningar í Skoruvíkurbjargi á Langanesi og í Grímsey.

Þar segir að talningar í sumar sýni t.d. að í Skoruvíkurbjargi bendi niðurstöður til 42% fækkunar stuttnefju milli ára. Til lengri tíma litið sýna niðurstöður talninga þar fram á langvarandi fækkun tegundarinnar. Er því svo komið að stuttnefju hefur nú fækkað um 82% í Skoruvíkurbjargi frá 1986. Haldist þessi þróun áfram má leiða líkur að því að stuttnefjur hverfi úr Skoruvíkurbjargi eftir u.þ.b. fimm ár. Talningar sýna einnig verulega snarpa fækkun langvíu (29% og 21%) á báðum stöðum.

Þar segir jafnframt að ritu hefur, líkt og stuttnefju, fækkað mikið í Skoruvíkurbjargi frá því 1986. Fjöldi ritu þar á nýliðnu sumri var sá lægsti frá upphafi talninga og reyndist vera rétt um 16 prósent af því þegar mest var árið 1994. Minniháttar sveiflur hafa verið í Grímsey síðan 2009 og virðist ritu fjölga þar frekar en hitt. Frá því reglubundnar talningar hófust þar hafa ekki verið fleiri ritur á talningarsniðum í Grímsey en á nýliðnu sumri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×