Skoðun

Vegurinn til glötunar

Birgir Dýrfjörð skrifar

Leiðarvísar við þjóðvegi eru oft kallaðir vegprestar. Þeir vísa veginn. Þegar mikill munur þykir á orðum og gjörðum ýmiss konar predikara er þeim því oft líkt við vegpresta, og þá með þeirri skýringu að þeir vísa veginn en fara hann ekki sjálfir. Þykir þá sannast, sem sagt er, að vegurinn til glötunar er varðaður fögrum fyrirheitum.



Mér komu þau orð í huga þegar ég las í 3. grein í siðareglum Alþjóðasambands jafnaðarmanna, sem samþykktar voru á 22. þingi þess í Sao Paulo, þar sem segir um samstarf við aðrar stjórnmálahreyfingar: „að samþykkja ekki neins konar pólitískt bandalag eða samvinnu, á hvaða stigi sem er, við hvern þann stjórnmálaflokk sem hvetur til eða reynir að kynda undir þjóðernis- eða kynþáttahatri“.



Hér er afdráttarlaust kveðið að orði, ekkert bandalag eða samvinnu „á hvaða stigi sem er“.



Í borgarstjórn

Fólk, sem með einum eða öðrum hætti aðhyllist hugmyndir jafnaðarstefnunnar um mannréttindi má því vera ánægt með staðfestu þeirra borgarfulltrúa, sem ákváðu að hafa enga samvinnu við Framsóknarflokkinn, meðan hann gerir ekki hreint fyrir sínum dyrum vegna þjóðernis- og kynþáttahyggju frambjóðenda hans fyrir síðustu kosningar til borgarstjórnar.



Flest fullorðið fólk veit að auðveldara er að gefa fögur fyrirheit en halda þau, og stundum kostar að vera maður orða sinna. Því miður er sú greiðsla þó ekki alltaf öllum laus í hendi. Það er því fagnaðarefni að í borgarstjórn Reykjavíkur er fólk, sem reyndist borgunarmenn fyrir orðum jafnaðarmanna.



Sem kjósandi í Reykjavík og fulltrúi í flokksstjórn Samfylkingarinnar finnst mér skylt að þakka því fólki.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×