Lífið

Vill að fleiri kvenkyns skáld taki upp pennann

Þórður Ingi Jónsson skrifar
„Skáld“ ætti að nægja - Alma telur viðhorfin til kvenkyns penna vera öðru vísi en til karla.
„Skáld“ ætti að nægja - Alma telur viðhorfin til kvenkyns penna vera öðru vísi en til karla. mynd/úr einkasafni
„Ég veit ekki hvernig á að hvetja stelpur til að skrifa meira, kannski vantar þær fyrirmyndir,“ segir Alma Mjöll Ólafsdóttir, skáld og eina konan sem sýnir verk á vegum sjálfstæða leikhópsins Ungleiks í Borgarleikhúsinu í nóvember.

Alma segist vilja sjá fleiri ungar konur taka upp pennann en af þeim tólf einstaklingum sem sendu inn leikrit til Ungleiks í haust voru aðeins þrjár konur. „Þetta er svolítið eins og með liðin í Gettu betur og MORFÍS. Um leið og maður sér stelpur í þessum liðum þá fær maður þá flugu í höfuðið að þetta sé hægt,“ segir Alma, sem telur viðhorf til kvenkyns rithöfunda í samfélaginu vera öðruvísi en til karlkyns penna.

„Mér finnst pínu merkilegt að til að byrja með fann ég fyrir ákveðinni pressu að mitt verk yrði að vera meistaraverk, svo ég myndi nú ekki klúðra þessu fyrir stelpum. Auðvitað ýtti ég þessari hugsun strax til hliðar en mér fannst samt merkilegt að taka eftir henni. Ég hef stundum hugsað þegar ég er að skrifa bækur: „Passaðu þig að skrifa ekki bara kvenlegt dót,“ því maður vill ekki að dótið sitt fái einhvern stimpil. Það er auðvitað fáránlegt því efnið sem ég skrifa er skrifað út frá sjálfri mér og auðvitað eiga raddir ungra stelpna að eiga sitt svæði í þessum bransa án þess að vera bækur um konur fyrir konur,“ segir hún.

„Á meðan það eru færri konur en karlar sem skrifa þá eru þær kannski undir meiri pressu því að þeim finnst augljósara ef þær gera mistök heldur en karlar,“ bætir hún við. „Það vantar bara einhverja fylkingu af pönkurum (sem er hægt og rólega að myndast) sem segja bara „fokk jú, ég geri bara það sem ég vil,“ og þannig hvetja aðrar stelpur til að gera bara nákvæmlega það sem þeim sýnist. Ekki kalla ungar konur „skáldkonur“ því enginn maður er kallaður „skáldkall“. „Skáld“ ætti bara að nægja.“

Þess skal þó getið að helmingur leikstjóranna á Ungleik í nóvember er konur og helmingur karlar.


Fleiri fréttir

Sjá meira


×