Allir eiga sér eitthvert annað sjálf. Ég er sjálfur samanskrúfaður úr mörgum karakterum, er bæði kona og maður, köttur og hrafn, súperhetja og trúður. Á hrekkjavökunni nota ég tækifærið til að fá útrás fyrir þessa hlið á mér,“ segir Páll Óskar Hjálmtýsson sem stendur fyrir Halloween-balli um helgina.

Undirbúningurinn fyrir ballið er mikill og ekki síst líkamlegur og andlegur en Páll Óskar er á leiðinni í tveggja tíma nudd og nálastungur þegar blaðamaður hefur uppi á honum. „Ég þarf að liðka líkamann til enda er það strangt ferli þegar stórar helgar eru fram undan. Það gengur ekki að hoppa upp á svið í óspurðum fréttum,“ segir hann og hlær. „Við vorum byrjuð að skreyta á þriðjudaginn og erum að umbreyta Rúbín í vampírukastala.“
Tónlistarmaðurinn á langa helgi fram undan því hann mun standa fyrir einkahrekkjavökupartíi á föstudagskvöldið og svo tekur við pásulaus skemmtidagskrá á Rúbín frá ellefu til fjögur um nóttina á laugardaginn. Einn búningur nægir ekki fyrir slíkt maraþonkvöld.

„Það er ekki krafa að vera í búningi á ballinu en það er miklu skemmtilegra. Svo verðum við líka með förðunardömur á staðnum sem geta hresst upp á sminkið,“ segir hann glettinn.