Innlent

Verðlaus bréf fyrir hundruð milljóna seld í miðju hruni

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Eigendur IceCapital seldu félaginu stofnfjárbréf í Byr.
Eigendur IceCapital seldu félaginu stofnfjárbréf í Byr. fréttablaðið/stefán
Eigendur fjárfestingafélagsins IceCapital létu félagið kaupa af sér verðlaus bréf í Byr sparisjóði haustið 2008 þegar allt lék á reiðiskjálfi í íslensku efnahagslífi. IceCapital, sem áður hét Sund og var í eigu fjölskyldu Óla í Olís, var tekið til gjaldþrotaskipta 14. mars 2012, en skiptabeiðandi var Arion banki hf.

Félagið átti eignarhluti í viðskiptabönkunum þremur sem féllu í október 2008 og í Byr sparisjóði. Eftir fall stóru bankanna stóð félagið eftir með verðlitlar eignir en stökkbreytt lán.

Þetta er niðurstaða Héraðsdóms Reykjaness, en í síðustu viku voru dómar kveðnir upp í átta riftunarmálum sem þrotabúið höfðaði gegn fyrrverandi eigendum og stjórnendum IceCapital. Alls fær þrotabúið dæmdar 520 milljónir króna vegna þessara riftunardóma, en enn er óvíst hversu mikið af því verður hægt að innheimta.

Jón Kristjánsson, fyrrverandi stjórnarformaður IceCapital og stjórnarmaður í Byr, var dæmdur til að greiða þrotabúinu 90,3 milljónir króna vegna kaupa IceCapital á stofnfjárbréfum í Byr af honum sjálfum þann 4. nóvember 2008 og gerningurinn verið gjafagerningur. Greitt var fyrir bréfin með reiðufé, en dómurinn telur að IceCapital hafi verið ógjaldfært þegar viðskiptin fóru fram. Einnig var rift kaupum IceCapital á stofnfjárbréfum í Byr að verðmæti 90.315.122 krónur af Páli Þór Magnússyni, sem var framkvæmdastjóri Icebank.

Einnig var með dómunum rift arðgreiðslum til Jóns Kristjánssonar, Páls Þórs Magnússonar og Gunnþórunnar Jónsdóttur sem gerðar voru eftir að félagið var orðið ógjaldfært. Vegna þessa var Páll Þór Magnússon dæmdur til að greiða 31,8 milljónir króna, Gunnþórunn var dæmd til að greiða 38,1 milljón króna og Jón dæmdur til að greiða 25,3 milljónir vegna riftunar á arðgreiðslum.

Hæsta einstaka upphæðin sem þrotabúið fær greidda er þó ekki frá einstaklingum. Heldur er þar um að ræða 120 milljónir króna sem þrotabúið fær greiddar vegna riftunar á kaupsamningi um sölu IceCapital til NF Holding á 66 prósenta hlut í Norðurflugi þann 12. desember 2008. Hluturinn var síðar seldur frá NF Holding til eignarhaldsfélagsins Puma.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins nema lýstar kröfur í þrotabú IceCapital um 50 milljörðum króna. Skiptum á búinu verður ekki lokið fyrr en um mitt næsta ár. 

Óli í Olís.
Óli í Olís

Þeir einstaklingar sem þrotabú IceCapital höfðaði mál gegn eru allir í fjölskyldu Óla Kr. Sigurðssonar heitins. Óli í Olís, eins og hann var jafnan kallaður, var athafnamaður. Hann keypti 70% af hlutafé í Olís árið 1986 og skráði félagið fyrst fyrirtækja á Verðbréfaþing Íslands.

Óli lést í júlí árið 1992 og fjölskyldan seldi félagið 1995. Eftir það hóf fjölskyldan að fjárfesta, en helstu eignir félagsins árið 2008 voru hlutabréf í stóru bönkunum.

Gunnþórunn Jónsdóttir er ekkja Óla og móðir Jóns Kristjánssonar. Páll Þór Magnússon er tengdasonur Gunnþórunnar, eiginmaður Gabríelu Kristjánsdóttur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×