Skoðun
Jóna Sólveig Elínardóttir,
alþjóðastjórnmálafræðingur

Öfugsnúin aukaaðild

Jóna Sólveig Elínardóttir skrifar

Aðildin að EES veitir Íslandi aðeins takmarkaðan aðgang að nýstofnuðu bankabandalagi Evrópu, enda þótt það hafi nú þegar, og muni í framtíðinni, hafa víðtæk áhrif á fjármálastarfsemi hér á landi. Í ljósi þessa er full ástæða til þess að fjalla sérstaklega um aðra af meginstoðum bankabandalagsins – sameiginlega bankagjaldþrotskerfið – og hvernig Íslandi er skylt að innleiða Evrópulöggjöf en nýtur á sama tíma ekki góðs af þeim „verkfærum“ sem ESB-ríkin eru að þróa til að geta framkvæmt þessi nýju lög.

Ísland er samningsbundið, í gegnum EES, til að innleiða tilskipun um endurheimt og gjaldþrot banka en hún á að verja skattgreiðendur gegn þeim kostnaði sem hlotist getur af bankagjaldþrotum. Tilskipunin hefur enn ekki verið leidd í lög hér á landi. Eitt þeirra verkfæra sem ESB-ríkin munu nota til að geta, í raun og reynd, framkvæmt tilskipunina er samevrópski skilasjóðurinn (e. Single Resolution Fund).

Evrópski skilasjóðurinn verður fjármagnaður af u.þ.b. sex þúsund evrópskum bönkum og á þar með að tryggja að bankarnir sjálfir, en ekki skattgreiðendur, beri skaðann af mögulegum gjaldþrotum. Sjóðurinn dreifir áhættunni á bankana sex þúsund og færir þannig áhættuna af ríkissjóðum aðildarríkjanna og evrópskum skattgreiðendum. En hvað með íslenska skattgreiðendur?

Í reglugerð um skilasjóðinn (806/2014) kemur hvergi fram, eins og venjan er um EES-löggjöf, að reglugerðin gildi fyrir EFTA-EES-ríkin og þar með Ísland. Það bendir því allt til þess að EES-aðildin veiti Íslandi ekki aðgang að sjóðnum. Niðurstaðan verður því ansi hreint öfugsnúin: EES-samningurinn veitir Íslandi ekki aðgang að sömu verkfærum og Evrópusambandsríkin fá til þess að geta framkvæmt tilskipun um bankagjaldþrot en Ísland er samt skuldbundið til að innleiða þessa sömu tilskipun.

Ef Ísland fær ekki aðgang að evrópska skilasjóðnum þýðir það að öll áhættan af bankagjaldþrotum mun í reynd hvíla á ríkissjóði Íslands og þar með á íslenskum skattgreiðendum. Sagan sýnir að hættan á að fjármálastofnanir keyri í þrot er raunveruleg. Þarna yrðu Íslendingar því í mun verri stöðu en nágrannar okkar í ESB. Spurningin er hvort stjórnmálamennirnir okkar ætli ekki örugglega að tryggja að íslenskir skattgreiðendur séu jafn vel varðir gegn bankagjaldþrotum og nágrannar okkar í Evrópu og þá hvernig?Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Skoðun

Skoðun

Batnandi heimur í hundrað ár

Drífa Snædal, Sonja Ýr Þorbergsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir og aðrir formenn norrænna heildarsamtaka launafólks skrifar

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.