Skoðun

Um skammtímaleigu og gistináttaskatt

Pétur Sigurðsson skrifar
Ég hef fylgst með umræðunni um útleigu fasteigna í skammtímaleigu til ferðamanna. Þessi nýtingarmöguleiki eigna virðist hafi komið öllum í stjórnkerfinu í opna skjöldu. Að skammtímaleiga skuli vera sjö dagar eða minna og að langtímaleiga skuli vera 8+, hljómar eins og fimm aura brandari. Að það skuli þurfa allt að 16 eftirlitsmenn til þess að skoða og samþykkja húsnæði til skammtímaleigu er sorgleg staðreynd. Það einkennir umræðuna að hagsmunahópar reyna sífellt að skara eld að sinni köku og móta stefnuna fyrir ráðamenn án þess að skeyta nokkru um hvaða afleiðingar þetta getur haft á framtíð ferðamennsku á Íslandi. Eign sem er leigð til skammtímaleigu ætti að vera á svæði sem er skipulagt sem slíkt, því þannig getur sá sem kaupir eða leigir á því svæði vitað að hann geti átt von á fólki sem er að koma og fara á öllum tímum sólahringsins. Hins vegar tíðkast ekki á Íslandi að hverfi séu skipulögð sem skammtímaleiguhverfi og þyrfti að huga að því.

Ég vænti þess að flest hús á Íslandi hafi verið byggð með heimild viðkomandi sveitarfélags og þá í samræmi við byggingareglugerð. Tekið er tillit til, samkvæmt byggingareglugerð, aðgengis, hugað að neyðarútgöngum, raflögnum, pípulögnum, stigum og svo framvegis. Þess vegna skil ég ekki hvers vegna það Þarf hóp eftirlitsmanna til þess að taka út eign sem nota á í skammtímaleigu. Er ekki nægjanlegt að það komi einn maður til þess að kanna það hvort ólöglegar breytingar hafi verið gerðar á eigninni og hvort til staðar sé neyðarbúnaður. Ásamt því að gæta að því að eignin sé mannsæmandi bústaður.

Út í hött

Skoðum aðeins muninn á skammtímaleigu og langtímaleigu. Langtímaleiga er að mínu mati leigutími þar sem leigjandinn tilkynnir sitt lögheimili og tilkynnir póstinum heimilisfang. Skammtímaleiga er tímabundin eða árstíðabundin leiga vegna vinnu, skemmtunar eða annarrar tímabundinnar notkunar. Að halda því fram að 8+ dagar séu langtímaleiga er alveg út í hött, nær væri að segja að langtímaleiga sé 6+ mánuðir. Það hefur farið fram mikil umræða um Náttúrupassann, hvernig hægt sé að innheimta það fé og hvernig hægt sé að úthluta því. Þetta er mjög einfalt mál og hefur víða tekist vel. Það eina sem þarf að gera er að innheimta gistináttaskatt af allri skammtímaleigu, sama í hvaða formi hún er. Hvort sem er á hóteli eða tjaldsvæði. Gjaldið gæti verið milli 4% til 8% eftir því sem löggjafanum finnst hæfilegt. Innheimta má gjaldið með svipuðum hætti og virðisaukaskatt af öllum aðilum í ferðaþjónustu sem leigja út gistingu skemur en sex mánuði.

Það þyrfti einnig að setja það í lög um þennan skatt að það megi ekki nota hann til neins annars heldur en að bæta aðstöðu ferðamanna. Það ætti taka um þrjú ár að koma öllum helstu ferðamannastöðum landsins í lag. Þessi skattur kæmi til viðbótar þeim 7% virðisaukaskatti sem innheimtur er í dag.

Ferðamenn eru vanir gistináttaskatti og reikna með að þurfa að greiða hann. Þegar búið er að lagfæra ferðamannastaðina má búast við fjölgun ferðamanna í landinu.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×