Körfubolti

Jón Arnór verður með Íslandi gegn Bretum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson mætir til London í dag.
Jón Arnór Stefánsson mætir til London í dag. vísir/daníel
Íslenska körfuboltalandsliðið fær mikinn liðsstyrk í dag þegar Jón Arnór Stefánsson flýgur til móts við strákana í London en hann ætlar að taka slaginn með liðinu annað kvöld í mikilvægasta leik landsliðsins fyrr og síðar.

Jón Arnór er ekki einn í för í vélinni því KR-ingurinn Helgi Már Magnússon kemur einnig með. Jón Arnór Stefánsson er besti körfuboltamaður landsins og hefur verið það í meira en áratug.

Hann var ekki með liðinu í fyrstu tveimur leikjum þess í undankeppninni vegna óvissu um samningamál hans á næstu leiktíð.

„Jón er enn án samnings en hann tók þessa ákvörðun í samráði við fjölskyldu sína. Íslenska liðið er í góðri stöðu með að komast áfram og því tók hann þessa ákvörðun til að aðstoða liðið að tryggja Íslandi sæti á EuroBasket í fyrsta sinn í sögunni,“ segir í Fréttatilkynningu frá KKÍ.

Jón Arnór var með 16,5 stig að meðaltali í Evrópukeppninni í fyrra og hitti þá úr 53 prósentum þriggja stiga skota sinna. Árið á undan skoraði Jón Arnór 18,5 stig að meðaltali í leik og þar á meðal skoraði hann 28 stig í eina útisigrinum á móti Slóvakíu. Íslenska liðið er því þarna að endurheimta sinn besta mann.

Íslenska liðið spilaði samt frábærlega án Jóns í fyrri leiknum á móti Bretum í Höllinni en hinir ungu Haukur Helgi Pálsson og MartinHermannsson skoruðu þá saman 46 stig og sáu til þess að liðið saknaði ekki Jóns eins mikið.

Í leiknum annað kvöld verður spennustigið hins vegar hátt og reynsla þeirra Jóns Arnórs og Helga Más verður því gulls ígildi í Koparkassanum. Saman hafa þeir spilað 148 A-landsleiki, Helgi Már 78 leiki og Jón Arnór 70.

Þessir tveir hafa því séð tímana tvenna með landsliðinu í gegnum árin og eru auk þess fjölhæfir leikmenn og frábærir liðsmenn. Ef það eru einhverjir tveir sem geta komið inn í liðið við þessar aðstæður þá eru það þeir tveir.


Tengdar fréttir

Bestu úrslitin í Evrópuleik á Balkanskaganum

Íslenska körfuboltalandsliðið tapaði með tíu stiga mun á móti Bosníu í Bosníu í kvöld eins og áður hefur komið fram á Vísi. Þrátt fyrir tapið er þetta bestu úrslit íslenska körfuboltalandsliðsins á þessum slóðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×