Skoðun

Lifir þú við útgöngubann?

Árni Þór Þorgeirsson skrifar
Við lítum á ferðafrelsi sem sjálfsagðan hlut, en það er frelsi til þess að nálgast þjónustu eða félagsskap þegar við kjósum og við lítum öll á það sem almenn réttindi sem allir ættu að lifa við. Fólk sem hefur ekki fulla getu til þess að njóta þess vegna ýmissa annmarka, hvort sem það er hreyfihamlað eða blint, þarf að reiða sig á ýmsa þjónustu til að njóta þess sem flestir hafa.

Skert þjónusta þegar kemur að ferðafrelsi jafngildir útgöngubanni fyrir stóran hóp fólks. Þetta er útgöngubann út frá aðgerðaleysi. Þetta er mannréttindabrot út frá aðgerðaleysi.

Þegar fólk hugsar um ferðaþjónustu hreyfihamlaðs eða sjónskerts fólks þá vill það mikla fyrir sér þann kostnað sem því fylgir. En þetta er grunnþjónusta sem sveitarfélaginu ber samkvæmt lögum að framfylgja. Kópavogsbær hefur veigrað sér við að greiða ferðir blindra og sjónskertra og hefur bent á fjárhagsskort því til stuðnings, en á sama tíma hefur Kópavogsbær lagt til mikið fé í rekstur á s.k. ferðamannavagni fyrir Smáralind og er sú upphæð um tvær milljónir, sem er u.þ.b það fé sem þarf til þess að veita blindum og sjónskertum lágmarksferðaþjónustu.

Til að undirstrika þá stefnu sem ríkt hefur í velferðarmálum í Kópavogi tók bæjarstjórn þá ákvörðun að verðlauna bæjarstjóra með 23% launahækkun því þar hafi tekist svo vel að skera niður í grunnþjónustu á borð við menntun og félagslega þjónustu.

Launahækkun þeirra hæst launuðu ætti ekki að vera æðri mannréttindum þeirra sem þurfa á þjónustu nærsamfélagsins að halda. Við í Dögun og umbótasinnum viljum tryggja að lögbundin mannréttindi verði virt og standa vörð um og efla þá þjónustu sem sveitarfélaginu ber að veita íbúum sveitarfélagsins.

Fólk á ekki að þurfa að flýja sín heimili og sveitarfélag vegna aðgerðaleysis og ábyrgðarleysis embættismanna eða annarra fulltrúa.




Skoðun

Sjá meira


×