Lífið

Kaffi list er arftaki Næsta bars

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Augustin Navarro Cortés, fyrrverandi eigandi Næsta bars, opnar nýjan stað í kvöld, Kaffi list.
Augustin Navarro Cortés, fyrrverandi eigandi Næsta bars, opnar nýjan stað í kvöld, Kaffi list. vísir/daníel
„Þessi staður verður mjög svipaður og Næsti bar, þarna verður róleg músík og þægileg stemning,“ segir Augustin Navarro Cortés. Hann opnar nýjan skemmtistað í kvöld sem ber nafnið Kaffi list og stendur hann við Klapparstíg 38.

Augustin átti hinn sívinsæla stað Næsta bar en lokaði honum í marsmánuði.

„Helsti munurinn er sá að ég ætla að bjóða upp á tapas, smárétti og ýmsa rétti,“ bætir Augustin við. Hann hefur gjörbreytt staðnum og hefur unnið af kappi í um sex til sjö vikur við að gera staðinn tilbúinn.

Hann opnaði Kaffi list fyrst árið 1992 en lokaði staðnum árið 1999. Hann opnaði Næsta bar árið 2008 og var hann einn vinsælasti staður bæjarins.

„Ég ætla að hafa alls kyns tilboð eins og á Næsta bar. Ég ætla líka að bjóða upp á smárétti með ákveðnum drykkjum. Þetta verður í raun eins og endurbættur Næsti bar,“ útskýrir Augustin.

Kaffi list verður opnað klukkan 19 í kvöld. „Ég mun bjóða upp á ýmsa drykki og rétti í kvöld og það verður opið í kvöld til klukkan eitt. Það eru allir velkomnir, ég hlakka líka til að hitta gömlu kúnnana mína frá Næsta bar og gamla Kaffi list.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.