Skoðun

Koma tollar á landbúnaðarvörur neytendum ekki við?

Jóhannes Gunnarsson skrifar
Frá stofnun Neytendasamtakanna fyrir 61 ári hefur tollvernd á landbúnaðarvörum verið eitt af stóru málunum í hagsmunabaráttu neytenda, en samtökin telja að oftar en ekki sé meiri hagsmunum fórnað fyrir minni. Um tollverndina hafa samtökin ítrekað fjallað, ályktað, sent erindi til stjórnvalda og haldið málþing. Tollar og tollkvótar sem eru eingöngu settir til að vernda eina atvinnugrein ganga svo freklega gegn hag neytenda að samtökin munu berjast á móti þeim á meðan þeir eru við lýði.

Í febrúar sl. kom í ljós að landbúnaðarráðherra hafði skipað fulltrúa frá ýmsum hagsmunasamtökum í starfshóp um tollamál á sviði landbúnaðar og ákveðið að útiloka Neytendasamtökin frá þeirri vinnu. Í ljósi þess að um er að ræða mjög mikilvægt hagsmunamál fyrir neytendur sendu samtökin strax erindi til ráðherra þar sem þau óskuðu eftir að fá að koma að þessu starfi og tilnefna fulltrúa í starfshópinn.

Eftir ítrekanir á þessu erindi og fréttatilkynningar frá samtökunum, barst loks svar frá ráðuneytinu sem dagsett er 6. maí sl. Þar segir m.a.: „Núverandi skipan hópsins er eftirfarandi: Tveir fulltrúar koma hvor frá sínu ráðuneyti, einn frá Bændasamtökum Íslands, tveir frá framleiðendum, tveir frá launþegasamtökum, einn frá Samtökum atvinnurekenda og einn frá Samtökum verslunar og þjónustu. Að athuguðu máli verður ekki annað séð af skipan hópsins en að sjónarmið þeirra er hagsmuna eiga að gæta, muni koma fram með fullnægjandi hætti í nefndarstarfinu.“

Stjórn Neytendasamtakanna getur með engu móti fallist á að launþegasamtök, bændasamtök og atvinnurekendur í starfshópnum gæti hagsmuna neytenda sérstaklega. Verður því að túlka svarið sem svo að ráðherra telji að endurskoðun á tollalöggjöf á sviði landbúnaðar komi neytendum ekkert við.

Á umliðnum árum hafa stjórnvöld talið eðlilegt að Neytendasamtökin eigi fulltrúa í nefndum og starfshópum þar sem fjallað er um tolla og aðrar opinberar álögur á matvæli og raunar aðrar neytendavörur. Hér virðist ráðherra því marka nýja stefnu. Stjórn Neytendasamtakanna mótmælir harðlega þessari ákvörðun. Þegar um svo mikilvægt hagsmunamál fyrir neytendur er að ræða eins og tollamál á sviði landbúnaðar, er með öllu óeðlilegt að samtök sem hafa það eitt að markmiði að gæta hagsmuna neytenda séu sniðgengin á þann hátt sem hér er gert.

Stjórn Neytendasamtakanna




Skoðun

Sjá meira


×