Skoðun

100 lítrar á mínútu

Sigurður Friðleifsson skrifar

Orkuspá Íslands 2025 - 2050, unnin í sameiningu af Landsneti, Umhverfis- og orkustofnun, og Raforkueftirlitinu var kynnt í Hörpu þann 1. desember síðastliðin. Þó að athyglin hafi mikið til beinst að þróun raforkuframleiðslu og notkunar þá gefur orkuspáin líka yfirsýn yfir þróun olíu- og jarðhitanotkunar.

Það eru mjög áhugaverðar upplýsingar um olíunotkun að finna í Orkuspánni. Þar má sjá nokkuð skýrt að toppnum í sögulegri olíunotkun Íslands var náð árið 2018 og nú stefnir allt að olíunotkun á Íslandi muni minnka hægt en örugglega næstu ár og áratugi. Næstu tvo ár eftir 2018 voru auðvitað mjög sérstök þar sem heimsfaraldur gekk yfir og olíunotkun hrundi. Það er því ekki fyrr en nú þegar efnahagslífið hefur náð sér að fullu sem hægt er með nokkurri vissu að álykta að olíunotkunartoppurinn hafi sannarlega raungerst árið 2018.

Innanlandsnotkun

Þegar skoðuð er olíunotkun innanlands þ.e. án millilandaflugs og millilandasiglinga þá má finna áhugaverða stöðu. Innanlandsnotkun toppaði árið 2007 þegar notkunin náði 663 þúsund tonnum en er nú í kringum 500 þúsund tonn. Olíunotkun hefur því minnkað um rúmlega 160 þúsund tonn, þrátt fyrir aukna landsframleiðslu og fólksfjölgun. Við flytjum nú minna af olíu til landsins sem nemur 500 þúsund lítrum á dag. Þessi árangur var lengi vel drifin áfram af minni olíunotkun í sjávarútvegi, iðnaði og húshitun. Olíunotkun í vegasamgöngum er hinsvegar á pari við notkunina árið 2007.

Vegasamgöngur

Olíunotkun í vegasamgöngum hefur minnkað hægt enda hefur ökutækjum fjölgað um 100 þúsund frá árinu 2005 og ferðaþjónusta, sem er mjög olíudrifin, aukist gríðarlega. En toppurinn í vegasamgöngum virðist nú loksins vera örugglega að baki og toppaði að öllum líkindum árið 2018 í 306 þúsund tonnum. Orkuskipti bílaflotans virðist nú loksins vera að ná í skottið á vextinum og olíunotkun líklega á hægri niðurleið til framtíðar. Vöxtur í fólksfjölda og ferðaþjónustu hefur hingað til svolítið falið árangur orkuskipta í vegasamgöngum. Ef rýnt er í tölurnar má hinsvegar sjá að nýorkubílar sem ganga fyrir hreinni íslenskri orku, að hluta eða öllu leyti, hafa minnkað olíuþörf um 50 milljón lítra á ári. Það eru 100 lítrar á mínútu. Án þessara orkuskipta þyrftu Íslendingar að flytja inn 100 lítrum meira af erlendri mengandi olíu hverja einustu mínútu. Það eru bjartari tímar fram undan og ef við höldum áfram á þessari vegferð mun olíunotkun í vegasamgöngum helmingast frá toppnum árið 2018 á næstu 10-15 árum. Áfram gakk og ekkert hik.

Höfundur er sviðsstjóri Sviðs orkuskipta og hringrásarhagkerfis hjá Umhverfis- og orkustofnun. 




Skoðun

Sjá meira


×