Skoðun

Skuldaleiðrétting Hægri grænna

Helgi Helgason skrifar
Nú er það óðum að skýrast að aðgerðir ríkisstjórnarinnar í skuldamálum heimilanna eru hvorki fugl né fiskur. Enn einu sinni eru þeir sem mest þurfa á leiðréttingu lána sinna að halda skildir eftir upp á náð og miskunn hrægammanna í bönkunum. Mjög margir hafa orðið fyrir sárum vonbrigðum með þær aðgerðir sem ríkisstjórnin boðar miðað við það sem talað var um í kosningabaráttunni og þörf er á, að minnsta kosti hvað Framsóknarflokkinn varðar.

Ég held að margir hafi áttað sig á því hvað væri í uppsiglingu þegar Frosti Sigurjónsson steig í pontu á Alþingi og kastaði blautri tusku framan í kjósendur Framsóknarflokksins með því að lýsa því yfir að þeir sem hefðu farið 110% leiðina fengju ekkert frekar. Það er nefnilega þannig að flestallir sem fóru 110% leiðina standa í sömu sporum í dag. Tillaga sjálfstæðismanna um að fólk geti notað séreignarsparnaðinn sinn til niðurgreiðslu lána er í besta falli ósvífin.

Tillögur Hægri grænna í þessum efnum eru enn í fullu gildi. Ef fer fram sem horfir eru þær að mínu mati það eina sem getur komið í veg fyrir annað hrun í þjóðfélaginu. Hægri grænir, flokkur endurreisnar og sjálfstæðissinna, vilja að sett verði sérstök neyðarlög fyrir heimilin. Hægri grænir eru með lausnina. Hagfræðingar hafa staðfest að þessi lausn sé gerleg enda hefur hún nú þegar verið notuð í Bandaríkjunum og björguðu þeir sínu húsnæðiskerfi með henni.

Þessi lausn kæmi til framkvæmda strax með neyðarlögum. Þannig væru heimilin í landinu búin að fá allt að fimmtíu prósenta leiðréttingu, eftir því hvenær lánið var tekið, á íbúðaláninu sínu ekki seinna en þremur til fjórum vikum eftir gildistöku laganna. Nýja lánið yrði frá þeim degi óverðtryggt með föstum vöxtum og afborgunarbyrði getur lánþegi sjálfur stillt af, þannig að afborgunarbyrði væri til dæmis ekki hærri en tuttugu prósent af útborguðum launum eftir skatta. Þetta er skýr lausn og kostar skattgreiðendur ekki eina krónu. Í kjölfarið afnemum við verðtryggingu á neytendalánum og tökum upp nýja mynt, ríkisdal, og tengjum hana við Bandaríkjadal. Nánari útskýringar eru á xg.is.




Skoðun

Sjá meira


×