Skoðun

Norðurlöndin vilja aðstoða Úkraínu

Karin Åström og Hans Wallmark skrifar
Umheimurinn varð orðlaus og viðbrögðin létu ekki standa á sér þegar Rússar innlimuðu Krímskaga á ólöglegan hátt. Verknaðurinn er skýlaust brot á alþjóðarétti. Litlum og meðalstórum ríkjum eins og Norðurlöndum er það mikilvægt að staðið sé við alþjóðleg lög og reglur. Fyrir utan atburðarásina á Krímskaga er mikilvægt að átta sig á því að Úkraínumenn hafa mikla þörf fyrir aðstoð, ekki síst í baráttunni gegn spillingu og við uppbyggingu lýðræðis og réttarríkis.

Samstarf þingmanna frá fimm ríkjum og þremur sjálfstjórnarsvæðum í Norðurlandaráði byggir á lýðræðishugsun og nútíma réttarríki. Því er einlægur vilji til að aðstoða aðrar þjóðir á þessu sviði. Svipað og Norðurlöndin studdu þróun lýðræðis í Eystrasaltsríkjunum fyrir rúmum tuttugu árum er ástæða til að Norðurlöndin og grannsvæði þeirra taki nú höndum saman um að styðja við lýðræðisþróun í Úkraínu.

Á samráðsfundum sem Norðurlandaráð átti á dögunum með fulltrúum utanríkismálanefnda og forystu þjóðþinga Eystrasaltsríkjanna og Póllands kom greinilegur áhugi í ljós á því að efla samstarf ríkja á Eystrasaltssvæðinu um lýðræði og öryggismál. Stuðningur Norðurlandanna er vel þeginn og menn voru áfram um að dýpka samstarf um öryggis- og lýðræðismál.

Vopnaskak er áminning

Mikið er rætt um sameiginlegar aðgerðir gegn Rússlandi. Þjóðum Norðurlandanna finnst mikilvægt og eðlilegt að ræða það. Norðurlandaráð hefur því ákveðið að fyrirhugað þemaþing á Akureyri þann 8. apríl hefjist á umræðu um þessi málefni.

Vopnaskak Rússa við landamærin að Úkraínu er okkur áminning um að Rússar geta gripið til harðrar valdbeitingar en valdbeiting getur einnig birst í áróðri og ritskoðun. Norðurlandaþjóðirnar eiga lýðræðisleg gildi og reynslu af stjórnskipulegu ferli sameiginleg og þær eru reiðubúnar til að rétta Úkraínumönnum hjálparhönd í þeim efnum. Alþjóðabankinn og einstök ríki eru reiðubúin til að veita ýmis konar lán og aðra fjárhagsaðstoð. Við á Norðurlöndum erum reiðubúin til að leggja hönd á plóg til að skapa lifandi lýðræðishefð sem einkennist af gagnsæi, þátttöku og fjölbreytileika.




Skoðun

Sjá meira


×