Lífið

190.000 manns sáu myndina á fjórum dögum

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Barði seldi upp á alla tónleika sína á tónleikaferðalagi um Kína.
Barði seldi upp á alla tónleika sína á tónleikaferðalagi um Kína. mynd/Jeaneen Lund
„Þessi mynd er um fatlaðan strák sem tekur þátt í Iron Man-þríþrautinni og er byggð á sannsögulegum atburðum,“ segir tónlistarmaðurinn Barði Jóhannsson en hann samdi tónlistina við frönsku kvikmyndina De Toutes Nos Forces, sem frumsýnd var í Frakklandi í síðustu viku.

Á fyrstu fjórum sýningardögunum sáu yfir 190.000 manns myndina, sem gerir hana að fjórðu aðsóknarmestu kvikmynd Frakklands í síðustu viku.

„Það er ekkert planað eins og er,“ segir Barði spurður út í fleiri kvikmyndatónlistarverkefni.

Bang Gang á sviði í Kína.Mynd/Einkasafn
Fyrir utan þessa miklu velgengi í kvikmyndatónlistarheiminum var Barði að koma heim úr tónleikaferð um Kína með hljómsveit sinni, Bang Gang.

„Þetta gekk vonum framar og það var fullt á öllum tónleikum,“ segir Barði aðspurður um tónleikaferðalagið. Bang Gang kom fram á sjö tónleikum í sjö borgum í Kína og var uppselt á alla tónleika ferðalagsins.

Barði segir að vinsældir sveitarinnar hafi komið skemmtilega á óvart.

Barði og félagar skemmta í KínaMynd/Einkasafn
 „Ég vissi að það væri einhver hópur sem myndi mæta, en átti ekki von á að svona mörgum, til dæmis voru 1.200 manns í Peking,“ segir Barði og bætir við: „Þetta var ævintýri og Kínverjar eru hressandi.“

Barði vinnur nú hörðum höndum að því að klára fyrstu plötu Starwalker sem er dúett hans og Jean-Benoit Dunckel úr Air. Þá er ný Bang Gang-plata væntanleg á árinu auk þess sem Barði er að hefja vinnu við stórt klassískt verk sem fyrirhugað er að frumflytja 2015.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.